Fangaði skelfilegasta augnablik stríðsins

Hálfri öld eftir að hann tók myndir af slátrun Bandaríkjamanna á þorpsbúum í Víetnam segist fyrrverandi stríðsljósmyndarinn harma blóðbaðið sem samlandar hans stóðu fyrir í einu hryllilegasta grimmdarverki stríðsins.

Bandaríkjamaðurinn Ronald Haeberle segist í viðtali við AFP-fréttastofuna ósjálfrátt hafa farið að taka myndir á vettvangi sem síðar áttu eftir að afhjúpa hrylling blóðbaðsins í My Lai. 504 Víetnamar voru drepnir á einum degi, aðallega óvopnaðar konur, börn og aldraðir.

„Ég vildi muna hvað var að gerast þarna, ég vildi fanga þetta augnablik - og ég gerði það,“ sagði hann við fréttamann AFP á meðan þeir skoðuðu safn í þorpinu sem helgað er minningu fórnarlambanna. Í gær eru liðin nákvæmlega 50 ár frá voðaverkinu.

Breyttu gangi sögunnar

Myndirnar hans voru sumar hverjar birtar í tímaritinu Life árið 1969. Þær reyndust lykilatriði í því að afhjúpa fjöldamorðið en gjörningnum hafði verið haldið leyndum. Gagnrýni á drápin og yfirhylminguna hrísluðust upp um valdakerfi hersins og alla leið til þáverandi forseta Bandaríkjanna, Richards Nixon.

Truong Thi Tri, 76 ára, við mynd sem tekin var …
Truong Thi Tri, 76 ára, við mynd sem tekin var í kjölfar fjöldamorðsins í My Lai. AFP

Myndirnar eru óhugnanlegar. Á sumum þeirra má sjá nakin barnslík með andlitið ofan í skurði innan um fjölda annarra líka. Birtingar þeirra varð vatn á myllu andstæðinga stríðs Bandaríkjamanna í Víetnam og leiddu að lokum til þess að nokkrir hershöfðingjar voru ákærðir fyrir aðild sína að málinu.

Haeberle var ásamt bandarískum hermönnum í þorpinu My Lai sem heimamenn kalla Son My þennan örlagaríka dag árið 1968, Honum var sagt tilgangur hernaðaraðgerðarinnar væri að sitja um fyrir hermönnum Norður-Víetnam í þorpi í miðhluta landsins en það svæði var sagt vera helsta vígi þeirra. 

En er hann fór um þorpið ásamt öðrum fréttamanni sá hann með eigin augum að flestir hinna látnu voru ekki vopnaðir „óvinir“ Bandaríkjahers. „Við urðum vitni að algjöru blóðbaði í þorpinu,“ sagði hann að lokinni minningarathöfn í þorpinu í gær. Viðstaddir athöfnina voru hundruð syrgjenda, m.a. nokkrir þeirra sem lifðu árásina af sem og bandarískir hermenn sem höfðu tekið þátt í stríðinu. „Þetta var harmleikur sem hafði aldrei átt að eiga sér stað. Það voru engin átök, þetta voru allt almennir borgarar.“

Aðeins einn maður var dæmdur fyrir morðin, undirforinginn William Calley, sem sagðist hafa verið að framfylgja skipunum yfirmanna sinna sem höfðu fyrirskipað „leit og eyðingu“ á svæðinu. Calley baðst opinberlega afsökunar á drápunum árið 2009.

Gerðu lítið úr málinu

Haeberle segist sama dag og fjöldamorðin voru framin hafa spurt hershöfðingjana hvað hefði eiginlega gengið á. Lítið hefði verið gert úr málinu. Hann segir að á meðan verið var arð drepa fólkið hafi víetnamskur túlkur Bandaríkjahers spurt yfirmenn herdeildarinnar hvers vegna þeir væru að skjóta fólkið sitt. „Þetta eru almennir borgarar,“ segir hann túlkinn hafa sagt. 

Myndirnar birtust m.a. í tímaritinu Life árið 1969. Birtingin breytti …
Myndirnar birtust m.a. í tímaritinu Life árið 1969. Birtingin breytti gangi stríðsins og áliti fólks á veru Bandaríkjahers í Víetnam.

Haeberle hefur líkt og mörg hundruð aðrir bandarískir hermenn sem börðust í Víetnam komið þangað eftir að stríðinu lauk. „Ég get vottað þeim sem lifðu af og ástvinum þeirra samúð mína og vonandi fallast þau á afsökunarbeiðni mína á því sem gerðist þann 16. mars.“

Pham Thanh Cong er einn þeirra sem lifði árásina af. Hann man ekki ýkja mikið frá þessum hörmungardegi er hann horfði á fjölskyldu sína drepna af bandarískum hermönnum. Hann var aðeins ellefu ára og missti sjálfur meðvitund er handsprengja sprakk í kofa sem hann hafði falið sig í.

En allar götur síðan hefur hann helgað líf sitt því að halda minningu þeirra 504 þorpsbúa sem féllu á lofti. „Ég vil minna fólk á þetta fjöldamorð og minna fólk á miskunnarleysi bandaríska hersins,“ segir hann í samtali við AFP-fréttastofuna. 

Þrátt fyrir þetta ætlunarverk sitt er hann hikandi við að rifja upp eigin reynslu. Hann segir ofbeldið sem framið var í þorpinu enn sækja á sig. „Þegar ég fór að hugsa um þetta þá gat ég ekki sofið á nóttunni. Minningarnar komu til baka og allur sársaukinn og missirinn. Það gerði mig mjög sorgmæddan,“ segir hann. 

Er fjölskyldan heyrði þytinn frá þyrluspöðum Bandaríkjahers faldi hann sig ásamt móður sinni, bróður og systur í skotbyrgi á heimili þeirra í þorpinu. En hermennirnir hentu handsprengjum inn og skutu á fjölskylduna með rifflum sínum. Cong fór ekki út úr byrginu klukkustundum saman eða þar til faðir hans kom þangað og fann hann á lífi.

Myndirnar hófu að birtast í fjölmiðlum vestanhafs síðla árs 1969.
Myndirnar hófu að birtast í fjölmiðlum vestanhafs síðla árs 1969.

Það var rannsóknarblaðamaðurinn Seymour Hersh sem fletti ofan af stríðsglæpnum og breytti sú afhjúpun gangi stríðsins og skoðunum flestra Bandaríkjamanna á veru hers þeirra þar.

Enginn má gleyma

Cong segist halda minningu fórnarlambanna á lofti í þeim tilgangi að tryggja að slíkt geti aldrei aftur átt sér stað. Ungt fólk í Víetnam hugsar ekki lengur um stríðið en Cong segir mikilvægt fyrir alla að muna til að bera virðingu fyrir friði og standa vörð um hann.

Talið er að um þrjár milljónir Víetnama hafi fallið í stríðinu sem þar í landi er kallað Bandaríska stríðið, ekki Víetnamstríðið eins og gjarnan er gert á Vesturlöndum.

Í þorpinu Son My, sem bandarísku hermennirnir kölluðu My Lai, eru nöfn allra 504 fórnarlambanna höggvin í steinvegg.

Í gær var gerð mínútu þögn við minningarathöfnina og blóm svo lögð að minnismerkinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert