Segir eitrið mögulega búið til í Bretlandi

Sergei Skripal í réttarsalnum í Moskvu árið 2006.
Sergei Skripal í réttarsalnum í Moskvu árið 2006. AFP

Sendiherra Rússlands hjá Evrópusambandinu hefur gefið í skyn að taugagasið sem notað var til að eitra fyrri fyrrum gagnnjósnaranum Sergei Skripal og dóttur hans Yuliu kunni að hafa verið búið til í breskri tilraunastofu.

Sendiherrann, Vladimir Chizhov, sagði í samtali við BBC, að Rússland hefði ekkert haft með morðtilraunina á Skripa feðginunum að gera. Rússar ættu ekki varabirgðir af eitrinu og að Porton Down tilraunastofan væri ekki í nema 12 km frá borginni Salisbury í Bretlandi þar sem að Skripal feðginin fundust meðvitundarlaus þann 4. mars.

Bresk stjórnvöld hafa hafnað tilgátum Chizhovs og segja þær „vitleysu“.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, greindi þingmönnum frá því fyrr í vikunni að kennsl hefðu verið borin á taugagasið í geisla- og kjarnorkumiðstöðinni í  Porton Down. Þar hefðu vísindamenn komist að þeirri niðurstöðu að það væri svo nefnt Novichock taugagas sem þróað var í Rússlandi.

Rússnesk stjórnvöld greindu í gær frá því að 23 breskum erindrekum yrði vísað frá Rússlandi sem andsvar við þeirri ákvörðun breskra stjórnvalda fyrr í vikunni að vísa 23 rússneskum erindrekum úr landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert