Segir flaugar N-Kóreu geta náð til Evrópu

Mynd úr safni af eldflaugatilraun Norður-Kóreu. Þýska leyniþjónustan segist nú …
Mynd úr safni af eldflaugatilraun Norður-Kóreu. Þýska leyniþjónustan segist nú hafa heimildir fyrir því að flaugarnar geti náð til Evrópu.

Eldflaugar norðurkóreska hersins geta nú náð til Evrópu með kjarnaodda að því er þýska blaðið Bild am Sonntag hefur eftir heimildamanni í þýsku leyniþjónustunni. Sagði heimildamaðurinn að Ole Diehl, aðstoðarforstjóri þýsku leyniþjónustunnar BND, hefði greint þingmönnum frá því á lokuðum fundi að þetta væri orðið „öruggt“.

Diehl á þó einnig að hafa sagt stofnunina telja þær viðræður sem átt hafa sér stað milli Norður- og Suður-Kóreu eftir Vetrarólympíuleikana í síðasta mánuði vera jákvætt merki.

Leyniþjónustan hefur að sögn Reuters ekki tjáð sig um fréttina.

Hátt­sett­ur sendi­full­trúi Norður-Kór­eu sem sér um mál­efni Norður-Am­er­íku þar í landi hélt í dag til Finn­lands til að funda með Banda­ríkja­mönn­um og Suður-Kór­eu.

Spenna hefur farið vaxandi á Kóreuskaganum undanfarin misseri, enda hefur Norður-Kórea ekki farið dult með þá áætlun sína að kjarnavopnavæðast. Nokkur þýða hefur hins vegar verið í samskiptum ríkjanna frá Vetrarólympíuleikunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert