Átján ára og 11 kíló

Nyakol er orðin átján ára. Hún er 11 kíló að ...
Nyakol er orðin átján ára. Hún er 11 kíló að þyngd. Hún fékk malaríu fyrir tveimur árum en enga læknisaðstoð á þeim tíma og því er hún í dag mjög máttfarin. AFP

Nyakol var fimmtán ára er suðursúdanskir hermenn réðust á heimabæ hennar, Leer, svo hún neyddist til að flýja út í fenin ásamt móður sinni. 

Þetta var ekki í fyrsta skipti sem hermenn ríkisstjórnarinnar ruddust í gegnum yfirráðasvæði uppreisnarmanna í norðurhluta landsins með nauðgunum, mannránum og drápum. Nyakol var því í raun heppin að sleppa en á flóttanum veiktist hún alvarlega af malaríu. Hún fékk læknismeðferð of seint og hlaut því heilaskemmdir. Í dag getur hún hvorki gengið, borðað né talað án aðstoðar. 

Á þeim þremur árum sem liðin eru síðan hún veiktist hefur móðir hennar, Nyaduol, bókstaflega borið hiana á milli staða á flótta. 

Þær mæðgur lögðu síðast á flótta í síðasta mánuði er þær náðu loks að komast til Touch Riak, svæðis sem enn er undir yfirráðum uppreisnarmanna um sextán kílómetrum frá Leer. Þangað komu þær bugaðar af hungri og þreytu. 

Nyakol á gólfi bráðabirgðasjúkrahúss í bænum sem hún og móðir ...
Nyakol á gólfi bráðabirgðasjúkrahúss í bænum sem hún og móðir hennar flúðu til. AFP

Stöðug átök, sjúkdómar og svelti hafa orðið til þess að Nyakol glímir nú við alvarlega vannæringu. Hún er svipað þung og tveggja ára barn. Húðin hangir laus utan á beinaberum líkamanum. 

Borgarastyrjöldin í Suður-Súdan hófst í lok ársins 2013. Öll þjóðin hefur orðið fyrir barðinu á henni og eru almennir borgarar líkt og bráð í augum stríðandi fylkinga. 

 Nauðganir, pyntingar, morð og svelti eru fylgifiskar átakanna. Allar tilraunir til koma á friði hafa runnið út í sandinn. 

Í Leer er hamfarirnar, sem eru algjörlega af manna völdum, mestar. Þetta er heimabær stjórnarandstöðuleiðtogans og andspyrnumannsins Riek Machar. Stjórnarherinn gerir því tíðar árásir á svæðinu og hefur nú náð honum á sitt vald. 

Frá miðstöð Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Obo í Suður-Súdan.
Frá miðstöð Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Obo í Suður-Súdan. AFP

„Touch Riak er enn á valdi andspyrnuhreyfingarinnar og þegar regntímabilið hefst verður svæðið að eyju. Þess vegna finnst okkur við örugga hér,“ segir Nyaduol þar sem hún hlúir að dóttur sinni sem liggur á gólfi bráðabirgðasjúkrahúss.

Því miður hafa flestar hjálparstofnanir yfirgefið Leer og svæðið þar í kring þar sem óöldin er svo mikil að ekki er hægt að tryggja öryggi starfsmanna þeirra. 

Nokkur suðursúdönsk góðgerðarfélög starfa á svæðinu og Sameinuðu þjóðirnar dreifa pokum með matvælum úr lofti til nauðstaddra á jörðu niðri.

Á síðasta ári var hungursneyð lýst yfir í Leer og með aðstoð hjálparsamtaka tókst að afstýra útbreiddum hörmungum. En hungrið er þó viðvarandi hjá fólkinu. 

Uppreisnarmaður í Touch Riak. Stjórnarherinn hefur sótt að svæðinu.
Uppreisnarmaður í Touch Riak. Stjórnarherinn hefur sótt að svæðinu. AFP

Mest ógnin fyrir flóttafólkið í Touch Riak er þó vegna átakanna. Makuil Puok er 25 ára. Hann var skotinn af stjórnarhermönnum á flótta sínum til Touch Riak. Nú liggur hann á gólfi bráðabirgðasjúkrahúss og engist um af sársauka. Hann var skotinn í rasskinnarnar. 

Nyakol og móðir hennar geta ekki flúið aftur, ef hermennirnir koma til Touch Riak. „Dóttir mín var við það að deyja á flóttanum hingað. Hún er veikburða. Ég vona að vona að við verðum öruggar hér.“

En öryggi án matar er eins og dauðadómur sem dregst á langinn. Nyaduol fer því yfir fenin í leit að mat þegar færi gefst. 

mbl.is
UHD skjáir ( 4k )
Upplýsingar gefur Ólafur hjá Varmás ehf. sími 566 8144 ...
Skrifstofuhúsnæði Bolholti 4
Til leigu er skrifstofurými, alls um 110 fermetrar, í austurenda á 5. og efstu ...
110 fm sumarhús á Suðurlandi..
Sumarhús í Biskupstungum til sölu. Eru 2 hús, annað fullbúið og hitt með þrjú sé...
Húsgagnaviðgerðir og bólstrun
Ég tek að mér viðgerðir og bólstrun á gömlum og nýjum húsgögnum. Starfsemin fer ...