Miklir kjarreldar geisa í Ástralíu

Þykkur reykur liggur yfir svæðinu, en eldurinn hefur breiðst hratt …
Þykkur reykur liggur yfir svæðinu, en eldurinn hefur breiðst hratt út. AFP

Að minnsta kosti 70 heimili og byggingar eru taldar hafa eyðilagst í kjarreldum sem breiðast hratt út í New South Wales í Ástralíu og hafa nú náð að strandbænum Tathra. Yfirvöld segja íbúa í bænum, um 1.600 talsins, hafa verið flutta á brott til nærliggjandi bæjar og að einskis sé saknað. BBC greinir frá.

Fjórir íbúar bæjarins, sem er í um 450 kílómetra frá Sydney, þurftu þó að leita aðhlynningar vegna reykeitrunar og einn slökkviliðsmaður er sagður hafa slasast. Margir íbúar bæjarins yfirgáfu hann fótgangandi eftir strandlengjunni á sunnudag, en hitastigið á svæðinu er um 38 gráður.

Eldurinn hafði breiðst út yfir 1.000 hektara svæði á skömmum tíma áður en hann náði til Tathra, en erfiðlega hefur gengið að ná tökum á honum. Þó er talið að aðstæður til slökkviliðsstarfs séu betri í dag.

Áður höfðu að minnsta kosti átján byggingar í Victoria eyðilagst í kjarreldum, sem lýst er sem þeim verstu í Ástralíu á sumartíma. Talið er að eldarnir hafi náð yfir 40 þúsund hektara svæði og að þeir hafi kviknað út frá eldingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert