Segir dóttur sína hafa fallið í Afrin

Sýrlenskir uppreisnarmenn, sem berjast með Tyrkjum í Afrin, í höfuðborg …
Sýrlenskir uppreisnarmenn, sem berjast með Tyrkjum í Afrin, í höfuðborg héraðsins. AFP

Bresk kona sem barðist með kvennasveitum Varnarsveita Kúrda í Afrin-héraði í Sýrlandi féll að sögn föður hennar í átökum þann 15. mars. Tyrkjaher hóf áhlaup á Afrin-hérað, þar sem Kúrdar eru fjölmennir og Varnarsveitirnar voru með yfirráð, í lok janúar. Síðan þá hefur fjöldi árása verið gerður og um helgina tókst hernum að ræna völdum í borginni Afrin.

Anna Campell, sem sögð er hafa fallið í Afrin, var 26 ára og frá Sussex. Faðir hennar, Durk Campell, segir að hún hafi farið til Sýrlands í maí í fyrra til að berjast við hlið Kúrda gegn vígamönnum Ríkis íslams.

„Hún vildi búa til betri heim og hún var tilbúin að gera hvað sem var til að gera einmitt það,“ segir faðir hennar í samtali við BBC. „Ég sagði henni auðvitað að hún væri að stefna lífi sínu í hættu en hún vissi vel hvað hún var að fara út í. Mér finnst eins og ég hefði átt að gera meira til að sannfæra hana um að koma heim en hún var mjög ákveðin.“

Í byrjun mars bárust fregnir af því að Íslendingur, Haukur Hilmarsson, hefði fallið í átökum í Afrin. Þær fréttir hafa ekki enn fengist staðfestar. Hann barðist einnig með Kúrdum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert