Turpin-börnin laus úr prísundinni og glaðari

David og Louise Turpin á brúðkaupsdaginn sumarið 2016 ásamt börnunum …
David og Louise Turpin á brúðkaupsdaginn sumarið 2016 ásamt börnunum þrettán, sem eru á aldrinum eins árs til 28 ára þegar myndin er tekin. Ljósmynd/Facebook

Þrettán börn þeirra Davids og Louise Turpin, sem sögð eru hafa verið fangar á heimili foreldra sinna í Kaliforníu, eru nú loks farin að njóta frelsisins. Foreldrarnir eru sakaðir um að hafa misþyrmt tólf barna sinna.

Börnin búa nú á þremur heimilum í Riverside-sýslu eftir að hafa dvalið lengi á sjúkrahúsi í kjölfar þess að upp komst um málið. Sex þeirra eru á barnsaldri en sjö eru orðin eldri en átján ára. 

Forstjóri sjúkrahússins sem þau dvöldu á segir að börnin hafi nú styrkst og hafi verið orðin tilbúin að taka næstu skref í lífinu. 

Málið komst upp í janúar á þessu ári og voru Turpin-hjónin þá handtekin.

Í frétt CNN um málið segir að þar sem enginn fósturfjölskylda gat tekið við öllum sex yngri börnunum hafi þurft að skipta hópnum í tvennt. Tvö þau yngstu eru á einu  heimili og fjögur eldri á öðru.

Börnin hlutu litla sem enga formlega menntun en Turpin-hjónin sögðust hafa kennt þeim heima. Barnahópurinn er á aldrinum 2-29 ára. 

Saksóknari í Riverside-sýslu, sem fer með ákæru málsins, segir að foreldrarnir hafi beitt börnin ofbeldi og misnotkun. Þau hafi verið svelt, bundin niður og barin. Oft voru þau bundin við rúm sín vikum saman og fengu aðeins að baða sig einu sinni á ári. 

Eitt barnanna, sautján ára stúlka, lagði á flótta í gegnum glugga er tækifæri gafst. Hún hringdi svo í neyðarlínuna. Hún hafði undirbúið flóttann í meira en tvö ár.

Heimildarmaður CNN segir að börnin tali öll saman reglulega í gegnum Skype. Hann segir þau ánægð að loks sloppið.

Turpin-hjónin hafa verið ákærð fyrir yfir fjörutíu brot, m.a. pyntingar og frelsissviptingu. Þau neita sök. 

Í frétt CNN segir ennfremur að eitt af því fáu sem börnunum var leyft að gera á heimilinu var að skrifa í dagbækur. Mikið magn slíkra bóka er því til sem gætu nýst sem sönnunargögn um það sem börnin gengu í gegnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert