Hernaður Tyrkja í Afrín „þjóðarhreinsun“

Magnús Þorkell Bernharðsson er einn helsti sérfræðingur Íslands í málefnum ...
Magnús Þorkell Bernharðsson er einn helsti sérfræðingur Íslands í málefnum Mið-Austurlanda. mbl.is/Hari

„Enn á ný verður Kúrdum fórnað fyrir sérhagsmuni voldugs ríkis og í þessu tilviki eru það Tyrkir,“ sagði Magnús Þorkell Bernharðsson sagnfræðiprófessor og sérfræðingur í málefnum Mið-Austurlanda á opnum hádegisfundi á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands á þriðjudaginn í síðustu viku.

Í samtali við mbl.is segir Magnús að hernað Tyrkja gagnvart Kúrdum megi kalla þjóðarhreinsun. „Mér finnst alveg augljóst að þarna eru þjóðarhreinsanir,“ segir Magnús og bendir á að í hugum tyrkneskra ráðamanna séu Kúrdar mikil ógn við sjálfstæði og fullveldi Tyrklands og samtök Kúrda skilgreind sem hryðjuverkahópar.

Magnús segir að svolítið sérstök og hugsanlega alvarleg staða sé komin upp innan NATO vegna aðgerða Tyrkja í norðurhluta Sýrlands. YPG, varnarsveitir Kúrda í Sýrlandi hafa notið liðsinnis Bandaríkjamanna í baráttu sinni við samtökin sem kenna sig við Ríki íslams, en nú hafa Tyrkir látið til skarar skríða gegn YPG í Afrín-héraði og náð héraðshöfuðborginni Afrín á sitt vald, án þess að alþjóðasamfélagið láti mikið í sér heyra.

Ef Tyrkir ákveða svo í framhaldinu að ráðast á Manbij, þar sem YPG eru einnig í valdastöðu, gæti það magnað deiluna enn frekar. Þar eru Bandaríkjamenn með herlið og hafa hjálpað YPG að ná ítökum.

„Hvað gera Bandaríkjamenn ef Tyrkir ráðast á Manbij? Munu þeir koma YPG til varnar eða hörfa frá og gefa Tyrkjum frítt spil? Er hugsanlegt að Tyrkir og Bandaríkjamenn komi til með að skiptast á skotum? Eða er líklegra að Bandaríkjamenn meti það sem svo að stuðningur þeirra við Kúrda sé ekki þess virði?“ segir Magnús.

Magnús segir Tyrki nánast „vera með frítt spil“ í sínum aðgerðum vegna þess fjölda sýrlenskra flóttamanna sem dvelji innan landamæra Tyrklands og fá ekki að fara til Evrópu samkvæmt samkomulagi Tyrklands og Evrópusambandsins.

„Ef einhver verður með eitthvað múður gegn Tyrkjum segja þeir bara: „Ókei, þá opnum við flóttamannagáttina inn til Evrópu.“

Hvaða ríkisstjórn Evrópu ætlar að styðja það?“ spyr Magnús.

Miklar breytingar á þessari öld

Fyrirlestur Magnúsar á fundinum á þriðjudaginn í síðustu viku fjallaði um nýjar átakalínur sem myndast hafa núna í upphafi 21. aldarinnar í Mið-Austurlöndum. Hann sagði flesta enn vera að horfa á heimshlutann með „gleraugum 20. aldarinnar,“ en þörf sé á því að horfa á málin frá öðru sjónarhorni.

Margt hafi breyst í upphafi 21. aldarinnar eftir árásirnar á Bandaríkin þann 11. september 2001, sem hafi leitt til þess að ný heimsmynd skapaðist, þar sem stríðið gegn hryðjuverkum hafði mikil áhrif.

Magnús sagði að stríðið gegn hryðjuverkum hefði verið notað af ýmsum stjórnarherrum í Mið-Austurlöndum til að tryggja eigin stöðu. Stjórnarandstæðingar hafi víða verið skilgreindir sem hryðjuverkamenn og yfirgangur gegn þeim réttlættur undir því yfirskini.

Í upphafi mánaðar gaf Magnús Þorkell út bókina Mið-Austurlönd sem ...
Í upphafi mánaðar gaf Magnús Þorkell út bókina Mið-Austurlönd sem ætlað er að veita innsýn í málefni svæðisins, sem svo oft er fjallað um í fjölmiðlum. mbl.is/Hari

„Þeir sem áttu byssurnar, þau valdatæki, gátu réttlætt yfirgang gegn stjórnarandstæðingum og eigin þegnum með stríðinu gegn hryðjuverkum,“ sagði Magnús.

Mjög róstusamt var víða í Mið-Austurlöndum í kjölfar byltinga arabíska vorsins svokallaða. Það leiddi þó ekki til hinna lýðræðislegu umbóta sem þátttakendur höfðu vonast til, heldur þvert á móti eru herríki eitt einkenni Mið-Austurlanda á 21. öldinni.

„Það sem við vanmátum mjög var að skriðdrekar eru sterkari en hugmynd,“ sagði Magnús og nefnir Egyptaland sem dæmi um þetta. Þar hafi íbúar í raun skipt á réttindum sínum og frelsi, til að fá þann stöðugleika sem herinn veitir.

Hann segir Abdel Fattah al-Sisi forseta Egyptalands stjórna með „járnhendi“ og að velflestir í alþjóðasamfélaginu séu „ekkert að velta vöngum yfir því“, eða því hversu stór hluti blaðamanna og háskólamanna í Egyptalandi eru í fangelsi, þar sem landið sé stöðugt og sömuleiðis dyggur bandamaður Vesturlanda.

Salman ekki allur þar sem hann er séður

Magnús sagði í fyrirlestri sínum að sjá megi vaxandi átakalínur á milli sjíta- og súnnímúslima, sem helst birtist í átökum á milli Írans og Sádí-Arabíu. Hann ræddi einnig um Mohammed bin Salman, Sádaprins, sem hefur af ýmsum verið talinn boða nýja strauma frjálslyndis í hinu strangtrúaða ríki, meðal annars með því að leyfa konum að keyra bíla (!)

„Ekki láta blekkjast af Salman,“ sagði Magnús, breytingarnar í Sadí-Arabíu væru ekki lýðræðislegar, heldur væri hinn ungi leiðtogi að hrifsa til sín valdatæki sem hann hygðist nota í herríki sínu, sem nú stundi afar vafasaman hernað í Jemen með hörmulegum afleiðingum fyrir íbúa ríkisins.

„Margir verða af boðsferðum bavíanar,“ sagði Magnús um blaðamenn frá Vesturlöndum sem hafa sótt Sádaprins heim og skrifað lofræður um hann. Á fundinum í síðustu viku sagði hann viðstöddum að búast við því að sjá lofræður um Salman í bandarískum miðlum á meðan á opinberri heimsókn hans til Washington myndi standa. Það rættist heldur betur, en Sádaprins var t.d. í viðtali við fréttaskýringarþáttinn 60 Minutes, sem hlotið hefur nokkra gagnrýni fyrir að taka á prinsinum með hálfgerðum silkihönskum.

 „Við skulum ekki líta á hann sem einhvern friðsaman umbótasinna, langt því frá,“ sagði Magnús.

mbl.is
Suzuki GS 1000L,Forn, 81, Mótorhjól
Árgerð 1981. Keyrt 13.000 mílur, fornhjól sem þarf að skoða annað hvert ár. Hjó...
Byggingastjórn - Húsasmíðameistari
Löggiltur byggingarstjóri og húsasmíðameistari Tek að mér: - byggingarstjór...
STIGAR OG HANDRIÐ ALLAR MÖGULEGAR GERÐIR
Hagstæð verð, sjá meðal annars: http://www.youtube.com/watch?v=73dIQgOl2JQ...
UHD skjáir ( 4k )
Upplýsingar gefur Ólafur hjá Varmás ehf. sími 566 8144 ...