Krefjast svara um rannsókn á Weinstein

Harvey Weinstein er 66 ára. Hann er sagður vera í …
Harvey Weinstein er 66 ára. Hann er sagður vera í meðferð vegna meintrar kynlífsfíknar sinnar í Arizona. AFP

Sex mánuðum eftir að upp fór að komast um alvarleg og ítrekuð kynferðisbrot kvikmyndaframleiðandans Harveys Weinstein er þrýstingur um að sækja hann til saka vegna brota þessara farinn að magnast. Saksóknari í Manhattan er harðlega gagnrýndur fyrir að ákæra hann ekki vegna mála sem komust upp fyrir þremur árum. Yfirvöld lofa nú að skoða hvað fór úrskeiðis við rannsóknina á þeim tíma. 

„Við erum ákveðin í að hefja fulla og sjálfstæða rannsókn á málinu,“ stóð í færslu ríkissaksóknarans á Twitter við fyrirspurn frá Time's Up-hreyfingunni sem átti upptökin að afhjúpuninni síðasta haust. Ríkissaksóknarinn Andrew Cuomo er nú í endurkjöri til embættisins. 

Yfir 100 konur ásaka Weinstein

Meira en hundrað konur hafa nú ásakað Weinstein um að brjóta gegn sér. Ásakanirnar bundu endi á feril hans í kvikmyndageiranum og hefur framleiðslufyrirtæki hans nú farið fram á gjaldþrotaskipti. Forsvarsmenn fyrirtækisins segjast einnig hafa aflétt ákvæðum um þagnarbindindi í samningum kvenna sem höfðu ásakað Weinstein um brot.

Þá hefur eiginkona hans farið frá honum og lögregluyfirvöld í London, Los Angeles og New York rannsaka mál honum tengdum. Þá hefur kærum rignt yfir Weinstein.

Sagan segir að Weinstein undirgangist nú meðferð vegna „kynlífsfíknar“ á stofnun í Arizona. Hann hefur því ekki sést opinberlega vikum saman en hefur hins vegar ráðið þekktan lögmann, Ben Brafman, til að verja sig.

Stofnað var til Time's Up-hreyfingarinnar af þekktum leikkonum í Hollywood, m.a. þeim  Reese Witherspoon og Jessica Chastain. Þær hafa nú krafist þess að Cuomo rannsaki af hverju Weinstein var ekki ákærður vegna meintra brota gegn ítölsku fyrirsætunni Ambra Battilana Gutierrez en hún var meðal fyrstu kvennanna sem steig fram og sagði frá ofbeldi hans. Segja leikkonurnar að hefði Weinstein verið ákærður á þeim tíma hefði verið hægt að hlífa tugum kvenna fyrir ofbeldi hans næstu árin.

AFP

Hreyfingin segir það valda áhyggjum að mögulega hafi Weinstein haft einhver tök á saksóknaranum Cyrus Vance, sem fór með málið, og að starfsmenn hans hafi hótað Battilana.

Lögreglustjórinn í New York sem og Vance sjálfur hafa hafnað þessum ásökunum sem settar hafa verið fram í fréttum þar í borg. Þeir segjast hafa unnið saman að rannsókn málsins og ekkert óeðlilegt hafi verið við það hvernig þeir tóku á málinu. Talsmaður Vance segir umbjóðanda sinn þó ekki ætla að standa í vegi fyrir rannsókn ríkissaksóknarans á meðhöndlun málsins heldur vera samvinnufús. „Við munum að sjálfsögðu veita ríkissaksóknaranum allar nauðsynlegar upplýsingar og eigum von á því að hann muni komast að því að embættið hafði staðreyndir og lögin í fyrirrúmi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert