Macron vill útbreiðslu franskrar tungu

Emmanuel Macron Frakklandsforseti kynnir stefnu sína um útbreiðslu franskrar tungu.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti kynnir stefnu sína um útbreiðslu franskrar tungu. AFP

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hyggst eyða hundruðum milljóna evra til að ýta undir frekari útbreiðslu franskrar tungu á heimsvísu. Hann vill að franskan taki fram úr ensku í Afríku og verði meira notuð á vefnum. Þá vill hann losa tak enskunnar í Brussel. The Guardian greinir frá.

Macron sagði frönsku „tungumál frelsis“ er hann tilkynnti fyrirætlanir sínar um stóraukið fjármagn til frönskukennslu og tvöföldun nemenda í frönskum skólum erlendis.

Þá sagði hann ástandið í Evrópusambandinu nokkuð þversagnakennt. „Enska hefur líklega aldrei verið eins viðvarandi í Brussel og nú þegar við erum að ræða Brexit. En þessi yfirráð eru ekki óumflýjanleg. Það er undir okkur komið að setja reglur, að vera til staðar, og gera frönsku að því tungumáli sem gefur þeim sem tala hana fjölmörg tækifæri.“

Franska var löngum ríkjandi í höfuðstöðvum Evrópusambandsins í Brussel en enska er orðin viðvarandi í stofnunum þess, þá sérstaklega síðan austur-evrópskir meðlimir gengu í sambandið árið 2004.

Franska er sjötta mest talaða tungumál í heimi á eftir mandarín, ensku, hindi, spænsku og arabísku og í dag eru fleiri frönskumælandi utan Frakklands en í landinu. Með fólksfjölgun munu fleiri en 700 milljónir manna tala frönsku árið 2050, og 80% þeirra verða í Afríku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert