Yfirgefa sendiráðið í London

Rússneskir sendiráðsstarfsmenn, sem bresk stjórnvöld ákváðu að vísa úr landi, eru byrjaðir að yfirgefa sendiráðið í London. 

Bresk stjórnvöld ákváðu að vísa 23 rússneskum erindrekum úr landi þar sem Rússar svöruðu ekki formlega beiðni þeirra um upplýsingar varðandi tilræði gegn rússnesku Skripal-feðginunum í Salisbury 4. mars. Telja þau sig hafa vissu fyrir því að eitrið sem var notað í árásinni hafi verið þróað og framleitt í Rússlandi og að þarlend stjórnvöld hafi fyrirskipað árásina.

Rússneska sendiráðið í London er í nágrenni Kensington-hallar og í morgun fór fólk að streyma þaðan, að því er fréttastofan AFP hermir. Í hópnum var fólk sem hélt á gæludýrabúrum. Fór fólkið út í litlar rútur.

Rússar hafa svarað í sömu mynt og tilkynnt að jafnmörgum breskum stjórnarerindrekum verði vísað frá landinu.

Hópur fólks yfirgaf rússneska sendiráðið í London í dag.
Hópur fólks yfirgaf rússneska sendiráðið í London í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert