19 farast í rútuslysi á Filippseyjum

Björgunarmenn á slysstað. 19 fórust er rútan féll niður gilið …
Björgunarmenn á slysstað. 19 fórust er rútan féll niður gilið og 21 slasaðist. AFP

19 manns létust og 21 til viðbótar slasaðist þegar rúta fór út af veginum og féll niður gil á Filippseyjum. Rútan var að sögn filippseysku lögreglunnar á leið til höfuðborgarinnar Manila, þegar hún ók í gegnum brúarhandrið á Mindoro eyju seint í gærkvöldi með þeim afleiðingum að bíllinn féll niður gilið.

„Þeir sem lifðu slysið af segja ökumanninn hafa misst stjórn á ökutækinu og að þess vegna hafi þetta gerst,“ hefur AFP-fréttastofan eftir talsmanni lögreglunnar Imeldu Tolentino.

„Lögreglan er nú að rannsaka af hverju ökumaðurinn missti stjórn – hvort um tæknibilun var að ræða eða hvort að ökumaðurinn sofnaði undir stýri.“ Tolentino bætti við að ökumaðurinn hafi verið í hópi hinna látnu.

Samgöngustofa Filippseyja hefur nú afturkallað starfsleyfi rútufyrirtækisins sem ökumaðurinn starfaði fyrir á meðan að rannsókn stendur yfir.

Umferðaróhöpp eru algegn á Filippseyjum, en ökutækjum er oft illa við haldið og er flestum ekið af ökumönnum sem hafa fengið litla þjálfun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert