Brást reglulega illa við spurningum

Dómstóllinn í Kaupmannahöfn.
Dómstóllinn í Kaupmannahöfn. AFP

Réttarhöldunum yfir danska uppfinningamanningum Peter Madsen, sem ákærður er fyrir að hafa myrt sænsku blaðakonuna Kim Wall, er lokið í dag en þau halda áfram á morgun. Gert er ráð fyrir því að dómur falli í málinu 25. apríl.

Madsen er gefið að sök að hafa myrt Wall á síðasta ári um borð í kafbátnum Nautilus sem hann smíðaði. Hann hefur viðurkennt að hafa limað lík hennar í sundur en neitar því að hafa myrt hana. Þess í stað segir hann að um slys hafi verið að ræða. Madsen hefur hins vegar orðið margsaga um það með hvaða hætti það hafi gerst.

Réttarhöldin í dag fjölluðu að miklu leyti um það með hvaða hætti Madsen hafi limað sundur lík Walls, hvaða verkfæri hann hafi notað og hvers vegna hann hafi gert það. Ákæruvaldið hefur sagt það lið í að staðfesta dánarorsök Walls.

Madsen brást reglulega illa við spurningum saksóknarans Jakob Buch-Jepsen og lýsti því annað slagið yfir að hann hafi engu við málið að bæta. Einnig snerust spurningar um það hvers vegna hann hafi myrt blaðakonuna.

Saksóknarinn reyndi þannig að rökstyðja það að Madsen hefði myrt Wall en að ekki verið um slys að ræða líkt og Madsen hefur viljað meina, en uppfinningamaðurinn er einn til frásagnar af því sem gerðist um borð í kafbátnum.

Madsen sagðist í raun ekki skilja sjálfur hvers vegna hann hafi limað lík Walls í sundur en hefur þó gefið þá skýringu að hann hafi ekki getað komið líkinu í heilu lagi fyrir borð. Hann hefur þó ekki geta skýrt hvers vegna hann fjarlægði höfuð hennar af búknum.

Þá hefur Madsen viljað meina að hann hafi varpað líkinu í hafið til þess að málið heyrði sögunni til. Saksóknarinn spurði ítrekað um það hvort dauði Walls tengdist einhverju kynferðislegu en Madsen hefur alfarið hafnað því.

Réttarhöldin halda sem fyrr segir áfram á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert