Lögðu grunninn að sigri Trumps

Auglýsingum um gjörspilla Hillary var dreift í gríð og erg …
Auglýsingum um gjörspilla Hillary var dreift í gríð og erg í kosningabaráttunni. Hluti þeirrar herferðar var runninn undan rifjum Cambridge Analytica.

Breska fyrirtækið Cambridge Analytica stjórnaði allri kosningabaráttu Donalds Trump á netinu. Í rannsókn sjónvarpsstöðvarinnar Channel 4 kemur fram að fyrirtækið gæti hafa brotið kosningalög. Áður en þriðja þætti stöðvarinnar um málið var sjónvarpað var forstjóri fyrirtækisins, Alexander Nix, rekinn.

Fréttamenn Channel 4 rannsökuðu m.a. þátt Cambridge Analytica í kosningabaráttu Trumps á tímabilinu nóvember í fyrra þar til í janúar í ár. Einn fréttamannanna átti fund með forsvarsmönnum fyrirtækisins og þóttist vera aðstoðarmaður auðmanns sem vildi hafa áhrif á kjör ákveðins frambjóðanda í kosningum á Sri Lanka. 

Cambridge Analytica fullyrti að það væri þeim að þakka að Trump hefði sigrað í kosningunum, m.a. með því að ná naumum meirihluta 40 þúsund atkvæða í þremur ríkjum Bandaríkjanna. Trump fór með sigur á hólmi þó að hann hafði í heildina hlotið um 3 milljónum færri atkvæði en Hillary Clinton ná landsvísu.

Fyrrverandi forstjóri Cambridge Analytica, Alexander Nix.
Fyrrverandi forstjóri Cambridge Analytica, Alexander Nix. AFP

Í kosningabaráttunni varð mörgum tíðrætt um falskar fréttir og blekkjandi auglýsingar á samfélagsmiðlum. Þá var einnig rætt og er nú til rannsóknar hver afskipti Rússa af kosningunum voru.

Nix grobbaði sig af sigri Trumps og sagði: „Við gerðum alla rannsóknarvinnuna, fengum öll gögnin, allar greiningar, völdum skotmörkin [í herferðinni], við stjórnuðum allri kosningabaráttunni á netinu, í sjónvarpi.“

Þá sagði annar forsvarsmaður fyrirtækisins að búnar hefðu verið til gervistofnanir til að koma neikvæðu efni um mótframbjóðendur í dreifingu á netinu og á samfélagsmiðlum. Sagði hann að einnig hefðu stofnanir og samtök sem þegar voru til verið notuð í þessum tilgangi. „Við bara settum upplýsingarnar út í blóðrás netsins og horfðum svo á þetta vaxa, ýttum aðeins við því annað slagið á tímabilinu og horfðum á það taka á sig form,“ sagði Mark Turnbull, einn framkvæmdastjóra fyrirtækisins í falinni myndavél Channel 4.

Einnig ræddu forsvarsmenn fyrirtækisins um að þeir hefðu notað kosningateymið sjálft til að koma ákvæðum skilaboðum um Trump á framfæri en aðrar leiðir til að koma neikvæðum þáttum í umferð.

Donald Trump varð forseti Bandaríkjanna með hjálp Cambridge Analytica.
Donald Trump varð forseti Bandaríkjanna með hjálp Cambridge Analytica. AFP

Þannig hafi fyrirtækið m.a. notað slagorðið „gjörspillta Hillary“ (Crooked Hillary) í auglýsingum og efni sem sett var á samfélagsmiðla. Sú herferð hafi verið styrkt af einum af „ofurhópunum“ svokölluðu (Super Pacs) sem notast var við til að dreifa efninu. Á þessar auglýsingar var horft meira en 30 milljónum sinnum á meðan kosningabaráttunni stóð.

Samkvæmt bandarískum kosningalögum mega opinber kosningateymi ekki vera í samvinnu við utanaðkomandi aðila en skilgreina má ofurhópana á þann hátt. Cambridge Analytica neitar því að hafa farið á svig við lög og segja að tryggt hafi verið að starf þeirra fyrir kosningabaráttuna annars vegar og annarra hópa hins vegar hafi verið aðskilið. 

Í þætti Channel 4 mátti hins vegar heyra Alexander Nix útskýra hvernig fyrirtækið hefði notað sjálfeyðandi póstkerfi svo að engin slóð yrði rekjanleg. „Enginn veit að við höfum þetta og í öðru lagi þá stillum við póstana þannig að þeir eyðast eftir ákveðinn tíma. Svo að þú sendir þá og eftir að þeir hafa verið lesnir, tveimur tímum síðar, þá er þar ekkert.“

mbl.is