Og þá voru eftir tveir

Dauði síðasta karldýrs norðlæga hvíta nashyrningsins hefði ekki átt að koma neinum á óvart. Sudan var aldraður, þjáðist og var því aflífaður. Í tvö ár höfðu vopnaðir verðir í friðlandi í Kenía gætt hans fyrir veiðiþjófum allan sólarhringinn og tilraunir til að fá hann til fylgilags við kvendýr höfðu engan árangur borið. Nú eru aðeins tveir nashyrningar af þessari deilitegund á lífi í heiminum og þeir eru báðir kvenkyns.

En þó að þeir sem höfðu látið sig málið varða hefðu búið sig undir dauða hans og ítrekað varað við því að slíkt væri yfirvofandi var ekki sömu sögu að segja um almenning víðs vegar um heiminn sem brá við að heyra fréttirnar. Eðlilega spurði fólk sig að því hvort að þetta þýddi að tegundin myndi deyja út. Og ekki síst af hverju sú staða væri komin upp.

Fangaður og hafður til sýnis

Nashyrningurinn Sudan fæddist einmitt í Súdan, árið 1973. Þar var hann fangaður árið 1975 ásamt fimm öðrum nashyrningum af sömu tegund af útsendurum Chipperfield-fjölleikahússins. Sudan var fluttur sjóleiðina til dýragarðs í Tékklandi og hafður þar til sýnis. Að undirlagi verndarsamtakanna Ol Pejeta var hann fluttur þaðan árið 2009 og til friðlands í Kenía. Þá var orðið ljóst að tegund hans var í grafalvarlegri útrýmingarhættu. Þrjú önnur dýr af sömu tegund voru einnig flutt til Kenía í þeirri von að þau myndu fjölga sér.

Najin og Fatu eru einu norðlægu hvítu nashyrningarnir sem eftir ...
Najin og Fatu eru einu norðlægu hvítu nashyrningarnir sem eftir eru á jörðinni. AFP

Sudan hafði reyndar þá þegar eignast tvær dætur: Nabire árið 1983, sem drapst í dýragarðinum í Tékklandi 2015, og Najin sem fæddist í dýragarðinum en var flutt ásamt föður sínum til Kenía árið 2009. Najin eignaðist svo Fatu en þær tvær eru einmitt síðustu tveir norðlægu hvítu nashyrningarnir sem eftir eru á jörðinni.

Týndu hratt tölunni

Vonir höfðu staðið til þess að Sudan myndi eignast fleiri afkvæmi eftir komuna til Kenía. Þangað hafði einnig verið flutt óskylt kvendýr en það drapst árið 2014. Tveir aðrir nashyrningar af tegundinni, sem voru í haldi í dýragarðinum í San Diego, drápust svo á árabilinu 2014-2015.

Eftir komuna til Kenía var nashyrninganna gætt af vopnuðum vörðum og síðustu árin allan sólarhringinn. Staðreyndin er nefnilega sú að þrátt fyrir fágætið, eða kannski einmitt vegna þess, stafar dýrunum ógn af veiðiþjófum. Veiðarnar eru svar við gríðarlegri eftirspurn eftir hornum nashyrninga sem mulin eru niður í duft og ranglega seld sem kynörvandi efni. Markaðurinn er stærstur í Asíu og fólk tilbúið að greiða fúlgur fjár fyrir það, en hann er einnig að finna víðar. Staðreyndin er sú, og því hefur ítrekað verið komið á framfæri, að efnið í nashyrningshornunum er það sama og í fingurnöglum mannfólks. Því er jafn kynörvandi að naga á sér neglurnar og að bryðja duft úr nashyrningshorni. 

Sudan hvílir höfuð sitt á harðri steinsteypu í Dvur Kralove-dýragarðinum ...
Sudan hvílir höfuð sitt á harðri steinsteypu í Dvur Kralove-dýragarðinum í Tékklandi árið 2009, skömmu áður en hann var fluttur í friðlandið í Kenía. AFP

Náðugt ævikvöld

Sudan eyddi því síðustu ævidögunum með fjölskyldunni í friði og ró, ef svo mætti að orði komast. En síðustu mánuðina glímdi hann við aldurstengdan heilsubrest, m.a. í liðum, beinum og húð. Dýralæknar í friðlandinu sögðu því ekkert annað hafa verið hægt að gera undir það síðasta en að aflífa hann. „Við höfum nú orðið vitni að útdauða tegundar sem hefur gengið um jörðina í milljónir ára en gat ekki lifað mannkynið af,“ skrifaði ljósmyndarinn Ami Vitale á Instagram-síðu sína um dauða Sudans. Vitale er ljósmyndari National Geographic og hafði fylgt Sudan á ferðalaginu frá Tékklandi til Kenía á sínum tíma. 

Og svo kvaddiSudan þennan heim á mánudaginn. Þar með minnkaði vonin til að viðhalda tegundinni. En hún dó þó ekki með öllu.

Síðustu árin var ljóst að náttúrulegur getnaður væri útilokaður hvað norðlæga hvíta nashyrninginn varðaði. Því var tæknifrjóvgun eina leiðin til bjargar tegundinni. Kynfrumum var safnað úr öllum dýrunum sem voru á lífi og vísindamenn vonast enn til þess að geta sett fósturvísa upp í annarri tegund, suðlæga hvíta nashyrningnum. Aðferðin er ekki gerleg enn sem komið er en unnið er að því að hrinda henni í framkvæmd. „Það er ekki víst að þetta takist,“ segir Philip Muruthi, varaforseti African Wildlife Foundation. Hann segir verkefnið auk þess kostnaðarsamt. „Þetta er sárgrætileg kennslustund í verndun dýra,“ segir hann um stöðu deilitegundarinnar.

Voru um 2.000 talsins árið 1960

Talið er að um árið 1960 hafi um 2.000 norðlægir hvítir nashyrningar verið á lífi. Þeir röltu um sléttur Austur-Afríku og var heimkynni þeirra m.a. að finna í Úganda, Súdan, í Mið-Afríkulýðveldinu og Austur-Kongó. 

Massaiar við hlið Sudans í fyrrasumar.
Massaiar við hlið Sudans í fyrrasumar. AFP

Á áttunda og níunda áratugnum voru þeir stráfelldir og aðeins fimmtán dýr voru eftir árið 1984. Það gleðilega átti sér þá stað að þeim fjölgaði í yfir þrjátíu dýr á næstu árum. En frá upphafi aldarinnar hefur veiðiþjófnaður færst í aukana. Árið 2014 voru aðeins sjö norðlægir hvítir nashyrningar í heiminum og allir voru þeir í dýragörðum eða friðlöndum. Sumarið 2015 voru þeir orðnir fjórir og aðeins fáum mánuðum síðar þrír. Nú er Sudan allur og „þá voru eftir tveir,“ eins og segir í umdeildu kvæði um Tíu litla negrastráka.

Þetta yrði ekki fyrsta nashyrningstegundin til að deyja út á síðustu árum. Árið 2013 var því lýst yfir að vestlægi svarti nashyrningurinn væri útdauður. Mikil fækkun hefur svo orðið í stofni austlæga svarta nashyrningsins. Aðeins um þúsund dýr eru talin eftir og tegundin því í mikilli útrýmingarhættu. Hinn suðlægi hvíti nashyrningur er bjartasta vonin. Dýrin af þeirri tegund eru um 20 þúsund talsins. Og mögulega verður úr þeim hópi valin staðgöngumóðir fyrir afkvæmi Sudans.

Greinin byggir á fréttum National Geographic, Chicago Tribune, Newsweek o.fl.

mbl.is
ALVÖRU KERRUR FYRIR ATHAFNAFÓLK
Vorum að fá sendingu m.a. af 2 tonna og 2,6 tonna kerrum, tveggja öxla, möguleik...
Hreinsa þakrennur o.fl
Hreinsa þakrennur, fyrir veturinn og tek að mér ýmis smærri verkefni. Uppl. í sí...
Perlur sem ekki þarf að strauja !!
Nýtt á Íslandi, perlur sem ekki þarf að strauja, einungis sprauta vatni á og þær...
Dyrasímar - Raflagnir
Dyrasímaþjónusta, geri við eldri kerfi og set upp ný, fljót og góð þjónusta Sí...