Átta mánaða fangelsi fyrir að slá hermanninn

Ahed Tamimi var sextán ára er hún var handtekin fyrir …
Ahed Tamimi var sextán ára er hún var handtekin fyrir að slá ísraelskan hermann. AFP

Palestínsk táningsstúlka, sem var handtekin í kjölfar myndbands þar sem hún sást slá ísraelskan hermann á hernumdu svæðunum á Vesturbakkanum utan undir, gerði dómssátt í málinu og hlaut átta mánaða fangelsisdóm.

Málið var tekið fyrir hjá ísraelskum herdómstól og féllst dómari á samkomulag sem stúlkan og saksóknarar hersins gerðu. 

Ahed Tamimi, þá sextán ára, vakti alheimsathygli, er myndbandið var birt í desember. Margir álíta hana hetju fyrir að standa uppi í hárinu á ísraelskum hermönnum sem eru á hinum hernumdu svæðum á Vesturbakkanum í Palestínu.

Ísraelsk yfirvöld sökuðu hins vegar fjölskyldu hennar um að nota hana til að ögra sér. 

Áður en Tamimi gekk til réttarsalarins í gær sagði hún að ekkert réttlæti væri hægt að fá í hernámi og að fyrirtaka málsins fyrir herdómstól Ísraela væri ólögmæt.

Lögmaður Tamimi segir að hún verði laus úr fangelsi í sumar. Tamimi játaði samkvæmt samkomulaginu fjögur af þeim tólf brotum sem hún var ákærð fyrir, m.a. líkamsárás. 

Ísraelski herinn sagði í yfirlýsingu eftir að samkomulagið var kunngjört að hann myndi halda aðgerðum sínum „til að tryggja öryggi og reglu“ á Vesturbakkanum áfram. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert