Gæti hafa verið á lífi er hún var stungin

Saksóknarinn Jakob Buch-Jepsen spurði réttarmeinarfræðinginn Jacobsen að því hvort mögulegt …
Saksóknarinn Jakob Buch-Jepsen spurði réttarmeinarfræðinginn Jacobsen að því hvort mögulegt væri að dánarorsök Wall væri skurður á hálsi. Því var ekki hægt að slá föstu. AFP

Réttarhöldin yfir Peter Madsen, sem sakaður er um morðið á sænsku blaðakonunni Kim Wall, halda áfram í Kaupmannahöfn í dag. Annað vitni dagsins er réttarmeinafræðingurinn Cristina Jacobsen, sem rannsakað hefur líkamsleifar Wall. Rétt er að vekja athygli á því að lýsingarnar hér að neðan geta valdið óhug.

Jacobsen sagði það mögulegt að blaðakonan hafi enn verið á lífi, er hún hlaut stungur í kynfærasvæðið (d. underlivet). Áverkar í móðurlífinu bendi til þess að blóðrás Wall hafi enn verið virk er þeir áttu sér stað.

Réttarmeinarfræðingurinn sagði einnig mögulegt að dánarorsök Wall hefði verið sú að hún hefði verið skorin á háls, eins og ákæruvaldið telur líklegt, en ekki sé hægt að slá því föstu vegna þess að höfuð Wall hefði legið í poka í hafinu í nokkurn tíma og það torveldi nákvæmar greiningar á þeim áverkum.

Er verjandinn, Betina Hald Engmark, spurði Jacobsen að því hvort réttarmeinafræðingar hefður getað ákvarðað dánarorsök Wall, sagði Jacobsen svo ekki vera. 

Betina Hald Engmark, verjandi Madsen mætir til dómshússins í Kaupmannahöfn.
Betina Hald Engmark, verjandi Madsen mætir til dómshússins í Kaupmannahöfn. AFP

Madsen hefur haldið því fram að Wall hafi verið látin er hann stakk hana í móðurlífið og að það hafi hann einungis verið gert til að ná loftinu úr búk hennar, svo að hægt væri að sökkva honum til botns í Eyrarsundinu.

Þessari skýringu hafnar réttarmeinarfræðingurinn, þar sem hluti stungusáranna eru grunn. Auk þess gefi rannsóknir á sárunum það til kynna að blóðflæði hafi enn verið til staðar er áverkarnir voru veittir, sem þýði að Kim Wall gæti enn hafa verið á lífi á þeirri stund, ellegar nýlega látin.

Saksóknari í málinu sýndi réttarmeinafræðingnum um hálfs meters langt skrúfjárn sömu tegundar og Madsen keypti og hefur staðfest að hafi verið um borð í kafbátnum Nautilius. Réttarmeinafræðingurinn sagði að skrúfjárn af þessu tagi kæmi heim og saman við nokkurn hluta áverkanna á líki Wall, þar á meðal þeirra sem finna má í móðurlífinu.

Jacobsen var spurð í miklum smáatriðum út í alla þá fjölmörgu áverka sem fundust á líkamsleifum sænsku blaðakonunnar. Fréttamaður DR í dómsalnum, sem lýsir framgangi réttarhaldanna í beinni textalýsingu, hefur tekið þá ákvörðun að hlífa lesendum við ógeðsfelldum lýsingum sem ekki skipta máli við að meta sekt Madsen eða dánarorsök Wall.

Madsen hefur áður sagt að Wall hafi látist af slysförum um borð í kafbátnum um kl. 23:00 hins 10. ágúst í fyrra. Hann hefur einnig talað um að hann hafi ekki byrjað að hluta lík hennar í sundur fyrr en næsta morgun kl. 07:00.

Þetta stenst ekki, að mati réttarmeinafræðingsins Jacobsen. Ef að Madsen hefði sannarlega beðið til morguns með að veita Wall áverka, hefði blóðhringrás í líkama hennar verið hætt og mar ekki myndast í kring um sárin.

Textalýsing DR frá réttarhöldunum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert