„Við vorum kallaðar hórur og lygarar“

Fréttamaður Verdens Gang hóf að afla sér efnis í greinar …
Fréttamaður Verdens Gang hóf að afla sér efnis í greinar um ofbeldisverkin í Tysfjord árið 2014. Árið 2016 hóf blaðið svo mikla umfjöllun um málið og fylgir hér ein opnan sem birt var. Skjáskot/VG.no

Norska lögreglan hefur skráð 151 kynferðisbrot í Tysfjord í norðanverðu landinu. Þar búa aðeins um 2.000 manns. Brotin ná yfir tímabilið frá sjötta áratugnum og til ársins 2017 er upp um þau komst.

Ítarlega er fjallað um málið á vef Breska ríkisútvarpins og þar m.a. rætt við Ninu Iversen sem ólst upp í sveitarfélaginu. „Ég talaði alltaf um þetta. Frá því að ég var fjórtán ára þá hugsaði ég: „Ég ætla að skrifa bók um þessa misnotkun, ég ætla að stöðva þetta“. En auðvitað þá gat ég það ekki.“

Iversen segir að er hún var á táningsaldri hafi unga fólkið í Tysfjord trúað hvert öðru fyrir kynferðislegu ofbeldi og misnotkun sem það hafði verið beitt. Fullorðna fólkið hafi hins vegar engu trúað.

„Við vorum kallaðar hórur og lygarar. Það voru mörg okkar sem fengu þá meðferð,“ segir hún. Enginn hafi viljað hlusta á þau.

Þeir sem níddust á Iversen voru ættingjar hennar. Barnæskan hafi því verið hryllingur.

Nú er hún orðin 49 ára og flutt frá Tysfjord. Samt finnst henni hún ekki enn örugg.

Helmingur íbúanna Samar

Byggðin í Tysfjord er beggja vegna djúps fjarðarins. Öðru megin er þorpið Drag og hinum megin Kjopsvik. Ferja fer reglulega á milli byggðakjarnanna. 

Um helmingur íbúanna eru Samar en þeir voru frumbyggjar á þessum slóðum sem og víðar í norðanverðri Skandinavíu og Rússlandi.

83 fórnarlambaanna í ofbeldisverkunum í Tysfjord eru Samar og 92 gerendur einnig.

Í umfjöllun BBC segir Iversen frá því að árið 2005 hafi hún orðið móðir. Hún óttaðist um börnin sín og hafði því samband við barnaverndaryfirvöld. Hún sagði þeim frá því sem hún sjálf hafði gengið í gegnum. Hún sagði einnig lækninum sínum frá því. „Ég sagði öllum frá. En til að það sé hlustað á þig verður þú að vera af réttum uppruna. Einhver eins og ég, sem kemur úr fátækri fjölskyldu, er bara hunsaður.“

Kallað á hjálp

Það voru fleiri en Iversen sem reyndu að aðvara yfirvöld. Árið 2007 skrifuðu foreldrar barns sem hafði verið beitt kynferðisofbeldi bréf til forsætisráðherra Noregs og báðu um hjálp. Bréfið vakti athygli í fjölmiðlum og allir áttu von á því að brugðist yrði við.

Tysfjord er nyrst í Noregi.
Tysfjord er nyrst í Noregi. Wikipedia/Zorrolll

Á þessum tíma var djákninn Anna Kuoljok og eiginmaður hennar, lögfræðingurinn Ingar, í sambandi við tuttugu fjölskyldur sem í voru börn sem höfðu verið beitt kynferðisofbeldi. Hjónin eru bæði Samar. Þau töluðu opinberlega um málið, m.a. á fundum með stjórnmálamönnum og lögreglu. „Enginn vildi trúa því að málin væru svona mörg, þau héldu að við værum að ljúga,“ rifjar Anna Kuoljok upp. „[Yfirvöldum] fannst þessar frásagnir óþægilegar. Þau vissu ekki hvernig þau áttu að taka á þeim.“

Enginn vildi tala

Tor Asgeir Johansen, bæjarstjóri í Tysfjord, var einnig á þessum fundum með yfirvöldum en hann hefur aðrar skýringar á því af hverju málið var ekki tekið fastari tökum á þessum tíma.

„Það vildi enginn segja frá,“ segir hann við fréttamann BBC. „Almenningur er ekki lögreglan. Við getum ekki farið og skoðað inni á heimilum fólks. Fólk verður að koma og biðja um hjálp.“

Blaðamaður BBC skrifar að mjög erfitt geti reynst fyrir fórnarlömb kynferðisofbeldis að stíga fram og segja frá. Þá skiptir bakgrunnur þess engu máli. En fórnarlömbin í Tysfjord, sem mörg hver voru Samar, höfðu aðrar ástæður fyrir því að segja ekki frá. Þau treystu ekki lögreglunni, einmitt vegna uppruna síns.

Ekkert gerðist því í málinu næsta áratug þó að Iversen og fleiri héldu áfram að reyna að koma reynslu sinni á framfæri. 

Ljóðið sem breytti öllu

Iversen varð þunglynd. Höfnunin var henni gríðarlega erfið. Hún greip til þess ráðs að skrifa ljóð um reynslu sína. Ljóðið birti hún á Facebook undir fyrirsögninni TYSFJORD. Nafn heimabæjarins skrifaði hún með hástöfum.

Önnur kona í sveitarfélaginu sá færslu hennar og setti sig í samband við hana. Sú hafði þegar sett sig í samband við blaðamenn. Þá loks fór boltinn að rúlla.

Iversen setti sig í samband við fleiri fórnarlömb sem hún vissi af, m.a. ættingja sína. Þann 11. júní árið 2016 birti svo hið útbreidda dagblað Verdens Gang umfjöllun málið sem byggð var á frásögnum ellefu fórnarlamba ofbeldisins, bæði karla og kvenna. 

Og nú náði málið eyrum og augum almennings. Tone Vangen, lögreglustjóri í Nordland, las grein Verdens Gang og áttaði sig strax á því að málið væri alvarlegt. „Við urðum að setja þetta í mikinn forgang. Okkar helsta markmið var að koma í veg fyrir fleiri kynferðisbrot í Tysfjord.“

Rannsókn málsins hófst þá þegar. Vangen óskaði eftir því að fórnarlömbin myndu stíga frá og segja frá, sama hversu langt væri liðið frá brotunum.

Vann sér traust Samanna

Lögreglumanninum Aslak Finvik var falið að vinna sér traust Samanna. Hann sagði að þar til þá hefði þekkingu lögreglunnar á menningu og siðum Sama verið ábótavant, t.d. hvað varðar hlutverk trúarlegs leiðtoga þeirra og það traust sem Samar leggja á hann. Finvik segir Samana ekki hafa talið að Norðmenn almennt gætu skilið þeirra sýn. „En það var mikilvægt fyrir þá að við gerðum það.“

Verdens Gang vakti mikla athygli á ofbeldisverkunum í Tysfjord árið …
Verdens Gang vakti mikla athygli á ofbeldisverkunum í Tysfjord árið 2016. Þá fyrst fór boltinn að rúlla. Skjáskot/VG.no

Þetta leiddi til þess að fyrsta ákæran var gefin út vegna ofbeldisbrotanna í Tysfjord. Karlmaður sem hafði greiðan aðgang að konum sem græðari og hafði það hlutverk að hrekja úr þeim illa anda, hafði brotið gegn þeim. Hann var síðar dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi.

Þeir sem beittu Ninu Iversen ofbeldi eru látnir. Hún mun því aldrei finna réttlætið fyrir dómstólum. Hún fagnar hins vegar rannsókn lögreglunnar og hefur lagt sitt af mörkum hvað hana varðar. 

Fórnarlömbin 10-80 ára

Eftir að Verdens Gang birti grein sína og lögreglan hafði hvatt fórnarlömb til að stíga fram fóru um fjörutíu þeirra til læknisins í sveitarfélaginu, Fred Andersen. Yngsta fórnarlambið var tíu ára og það elsta áttrætt. Hann segist hafa meiri áhyggjur af þeim eldri en þeim yngri. Veita þurfi þeim öllum aðstoð en hinir eldri hafa borið sársaukann lengi og þjást enn.

Á meðan rannsókn lögreglunnar á málinu hefur staðið hafa yfir þúsund manns verið yfirheyrðir. Um 151 kynferðisbrotamál hefur komið upp úr kafinu en aðeins brot þeirra mun nokkru sinni rata fyrir dómstóla. Mörg málanna eru fyrnd samkvæmt norskum lögum.

Þetta þýðir að enn ganga kynferðisbrotamenn lausir í Tysfjord. Iversen segist hafa heimsótt sveitarfélagið nýverið. Þar hafi hún séð menn úr þessum hópi á götum úti. „Þarna voru börn að ganga heim úr skólanum og þetta fólk var þarna á ferli í kring. Það var hræðilegt.“

Það kemur í hlut lögreglumannsins Finvik að hafa eftirlit með hinum meintu gerendum sem eru af báðum kynjum. Hann segir að rætt hafi verið við fólkið og því sagt að koma ekki nálægt fórnarlömbum sínum. „Gerið þeir það þá munum við ákæra þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert