Komnir til Idlib-héraðs

Uppreisnarmenn og fjölskyldur þeirra voru fluttar frá austurhluta Ghouta í …
Uppreisnarmenn og fjölskyldur þeirra voru fluttar frá austurhluta Ghouta í gær. AFP

Hundruð uppreisnarmanna, sem Sýrlandsher flutti frá austurhluta Ghouta-héraðs í gær, eru nú komnir til Idlib-héraðs. Uppreisnarmennirnir og fjölskyldur þeirra fengu að yfirgefa svæðið eftir að samkomulag náðist milli þeirra og stjórnarhersins að undirlagi Rússa. 

Idlib-hérað er enn undir yfirráðum uppreisnarhópa. Þangað hafa hópar þeirra m.a. flúið frá Aleppo og fleiri stöðum í landinu sem herir Bashar al-Assads forseta hafa náð aftur á sitt vald eftir að uppreisnin hófst árið 2011. Blóðugt stríð fylgdi í kjölfarið og hundruð þúsunda manna hafa fallið í átökunum síðustu ár. 

Rútur fluttu fólkið frá Ghouta og til Idlib í gær. Flestir voru fluttir frá bænum Harasta sem var eitt höfuðvígi uppreisnarhópanna í héraðinu. Margir og ólíkir hópar hafa ráðið lögum og lofum í Ghouta síðustu ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert