Framkvæmdastjóri skemmtigarðs sakaður um manndráp af gáleysi

Verrückt-rennibrautin í Kansas.
Verrückt-rennibrautin í Kansas. Ljósmynd/Kansas

Yfirvöld í Kansas í Bandaríkjunum hafa ákært fyrirverandi framkvæmdastjóra skemmtigarðs vegna dauða 10 ára gamals drengs sem lét lífið í vatnsrennibraut árið 2016.

Tyler Miles, sem starfaði hjá Schlitterbahn Water Park, hefur m.a. verið ákærður fyrir manndráp af gáleysi. 

Fram kemur á vef BBC, að drengurinn, Caleb Schwab, hafi hlotið höfuðáverka þegar þriggja manna fleki sem hann sat á skaust upp í loftið og drengurinn skall á stöng. 

Miles neitar sök. Honum var sleppt úr haldi gegn greiðslu tryggingar sem var 50.000 dalir, eða sem jafngildir um fimm milljónum kr. 

Rannsókn málsins stóð yfir í 19 mánuði. Pilturinn er sonur Scott Schwab sem er þingmaður í Kansas-ríki. Atvikið varð 8. ágúst 2016 í svokolluðu Verrückt-rennibraut þar sem þrír sitja saman á fleka. Þeir sem fara í rennibrautina upplifa m.a. 52 metra fall á um 100 km hraða. 

Ákæruvaldið heldur því fram að brautin og tækjabúnaðurinn hafi brotið gegn öllum öryggisstöðlum. Þá er því haldið fram, að þeir sem báru ábyrgð á búnaðinu, m.a. fyrirtækið Schlitterbahn, hafi reynt að koma í veg fyrir að lögreglan klæmist yfir ákveðnar upplýsingar. 

Réttað verðu í máli Miles í september. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert