Lögreglumaðurinn lést af sárum sínum

Franskur lögreglumaður sem bauð sjálfan sig í skiptum fyrir gísl sem var í haldi byssumanns í matvöruverslun í Frakklandi í gær, lést af sárum sínum. 

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, segir að lögreglumaðurinn Arnaud Beltrame hafi dáið sem hetja og hafi sýnt af sér mikið hugrekki. Beltrame var 45 ára gamall. Þetta kemur fram á vef BBC.

Hann átti þátt í að koma í veg fyrir frekari árásir byssumannsins sem varð þremur að bana í suðurhluta Frakklands í gær.

Lögreglumenn felldu byssumanninn sem hét Redouane Lakim og var 25 ára gamall. Hann var sagður vera róttækur íslamisti. 

Arnaud Beltrame.
Arnaud Beltrame. Ljósmynd/Innanríkisráðuneyti Frakklands

„Hann lét lífið fyrir þjóð sína. Frakkland mun aldrei gleyma þessari hetjudáð, hugrekki hans og fórn,“ sagði Gérard Collomb, innanríkisráðherra Frakklands, í færslu á Twitter. 

Hann hafði áður greint frá því að Beltrame hefði særst alvarlega og væri að berjast fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi. 

Sextán særðust á árásinni í gær, þar af tveir alvarlega. Macron sagði að þetta hefði verið hryðjuverk. 

Lakdím er sagður hafa krafist þess að Salah Abdeslam yrði sleppt úr haldi. Hann er sagður hafa komið að því að skipuleggja hryðjuverkaárásina sem var gerð í París í nóvember 2015 þar sem 130 létust. 

Þá hefur lögreglan handtekið einn mann sem er sagður tengjast Lakdim. 

Frá aðgerðum lögreglunn við Super U matvöruverslunina í bænum Trebes …
Frá aðgerðum lögreglunn við Super U matvöruverslunina í bænum Trebes í suðurhluta Frakklands í gær. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert