Mæti byssumönnum með fulla vasa af grjóti

Margir vilja meina að flestir megi sín lítils þegar þeir …
Margir vilja meina að flestir megi sín lítils þegar þeir mæta manni vopnuðum hálfsjálfvirkum árásarriffli - jafnvel þeir sem eru með fötur fullar af grjóti. AFP

Aðstoðaryfirlögregluþjónn í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum hefur greint frá sérstakri aðferð sem lagt er til að nemendur beiti til að verja sig gangi byssumaður laus í skólanum þeirra. Þeir fá fötur sem eru fullar af grjóti.

David Helsel greindi þingmönnum í ríkinu frá því að fyrr í þessum mánuði hefðu nemendur við skóla í Blue Mountain School District fengið fötur af steinum sem þeir áttu að nota til að verja sig gegn árásum vopnaðra manna. Þetta kemur fram á vef BBC.

Helsel sagði að grípa ætti til grjótsins sem neyðarúrræði nái menn ekki að rýma skólana í tæka tíð. 

„Allar skólastofur hafa verið útbúnar með fimm gallona (um 19 lítrar) fötum af grjóti,“ sagði Helsel á fundi menntamálanefndar þingsins í Pennsylvaníu 15. mars sl. 

„Ef vopnaður einstaklingur reynir að komast inn í skólastofurnar, þá mun hann mæta inn í skólastofu sem er full af nemendur sem halda á grjóti og hann verður grýttur,“ bætti hann við.

Þetta kom fram í umræðum um byssuofbeldi í landinu sem hefur vakið mikla athygli í kjölfar fjöldamorðsins í skóla í Parkland í Flórída í síðasta mánuði, en þar féllu 17 fyrir hendi byssumanns. 

Nemendur við skólann sem komust lífs af hafa skipulagt göngu í dag sem ber yfirskriftina March for Our Lives. Mótmælt verður í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna. Gangan mun einnig fara fram í Reykjavík nú síðdegis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert