Vill taka hart á N-Kóreustjórn

Um þriðjungur æðstu embættismanna Hvíta hússins lét af störfum á …
Um þriðjungur æðstu embættismanna Hvíta hússins lét af störfum á síðasta ári, miklu fleiri en á fyrsta ári annarra forseta í nútímasögu Bandaríkjanna. Ekkert lát hefur verið á mannskiptum í ár.

Stjórnvöld í Suður-Kóreu og Japan hafa áhyggjur af þeirri ákvörðun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta að velja John Bolton sem þjóðaröryggisráðgjafa sinn vegna stuðnings hans við hernaðaraðgerðir í Norður-Kóreu til að fyrirbyggja að einræðisstjórnin þar geti ógnað Bandaríkjunum með kjarnavopnum.

Trump hefur tilkynnt að John Bolton, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, taki við embætti þjóðaröryggisráðgjafa af HR McMaster.

Bolton var á meðal helstu stuðningsmanna hernaðarins í Írak árið 2003 vegna meintra gereyðingarvopna einræðisstjórnar Saddams Husseins og hefur varið þá ákvörðun George W. Bush, þáverandi forseta, að fyrirskipa innrás í landið, þótt gereyðingarvopn hafi ekki fundist þar. Trump hefur hins vegar sagt að innrásin hafi verið hörmuleg mistök. 

Sendir Kim skilaboð

Bolton hefur á síðustu árum hvatt til þess að Bandaríkjamenn komi einræðisstjórninni í Norður-Kóreu frá völdum og beiti til þess hervaldi ef nauðsyn krefur. Nokkrir fréttaskýrendur telja að Trump hafi valið Bolton nú til að undirbúa fyrirhugaðan fund forsetans með Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, ekki síðar en í maí. „Með því að velja Bolton, sem hefur hvatt til fyrirbyggjandi árása á Norður-Kóreu, er Trump að senda einræðisstjórninni skilaboð, segja henni að hún þurfi að hefja viðræður til að komast hjá svo harkalegum hernaðaraðgerðum,“ hefur The Washington Post eftir Kim Sung-han, fyrrverandi aðstoðarutanríkisráðherra Suður-Kóreu.

Trump hefur gefið til kynna að hann telji að hægt sé að ná samkomulagi við Kim Jong-un um að einræðisstjórnin afsali sér kjarnavopnum en Bolton hefur dregið það í efa. Hann telur að ekki sé hægt að treysta henni og heimfærði gamlan brandara upp á hana nýlega þegar hann var spurður hvort hann tryði því að hún vildi í raun og veru friðmælast: „Spurning: Hvernig veistu að Norður-Kóreustjórn er að ljúga? Svar: Hún hreyfir varirnar.“

Bolton hefur sagt að besta leiðin til að komast hjá átökum sé að auka hernaðarmáttinn og skírskotað til rómverska málsháttarins „viljir þú frið skaltu búa þig undir stríð“.

Margir fréttaskýrendur telja að fyrirbyggjandi árásir á Norður-Kóreu geti leitt til mikilla blóðsúthellinga – líkt og innrásin í Írak – því að talið er að einræðisstjórnin svari þeim með sprengjuárásum á Suður-Kóreu, m.a. á Seoul sem er með 25 milljónir íbúa.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert