Madsen talaði um að gera „snuff“ mynd

Uppfinningamaðurinn Peter Madsen með lögreglu eftir að hann tilkynnti að …
Uppfinningamaðurinn Peter Madsen með lögreglu eftir að hann tilkynnti að kafbátur sinn hefði sokkið. AFP

Peter Madsen ræddi við konu hugmyndir sínar um að búa til svo nefnda „snuff“ kvikmynd í kafbátinum. Þetta kom fram í máli eins vitnisins sem yfirheyrt var í réttarhöldunum gegn danska uppfinningamanninum í morgun.

37 vitni verða yfirheyrði í dag á fimmta degi réttarhaldanna gegn danska uppfinningamanninum, sem ákærður er fyrir að hafa myrt sænsku blaðakonuna Kim Wall í kafbáti sínum í apríl í fyrra.

Meðal þeirra vitna sem komu fyrir réttinn nú í morgun eru tvær konur sem spurðar eru út í náin kynni sín af Madsen, og hefur önnur þeirra eftir þriðju konunni að þau hafi rætt um vað búa til svo nefnda „snuff“ kvikmynd með sér í kafbátinum. Heitið er notað yfir kvikmyndir þar sem einstaklingur er myrtur í raun og veru.

Blaðamaður danska ríkisútvarpsins DR er í dómsalnum og segir hún eitt vitnanna m.a. greina frá því að hún hafi kynnst  Madsen í BDSM partíi árið 2008.

Þrengdi ekki mikið að

Önnur kona sem bar vitni um kynni þeirra Madsen, segir þau hafa gert tilraunir með kynlíf þar sem að þrengt er að hálsi viðkomandi. Segir hún Madsen í eitt skipti hafa gert það við sig. „En hann þrengdi ekki mikið að,“ segir hún. Sjálf hafi hún líka þrengt að hálsi hans og Madsen hafi hvorki verið ofbeldishneigður í samskiptum þeirra, né hafi hann bundið sig. 

Spurningunni um það hvort að Madsen hafi leikið í klámmynd svaraði hún hins vegar játandi og sagði hann hafa leikið í tveimur myndum svo hún viti til.

Þá segir hún Madsen hafa átt í sms samskiptum við þriðju konuna og þau hafi rætt um að stunda kynlíf þrjú saman. Þar hafi þau rætt um að stunda óvarið kynlíf saman og að þess vegna hafi þau hafi öll farið í læknisskoðun til að staðfesta að ekkert þeirra væri með kynsjúkdóma.

Konan sem greindi réttinum frá því að þriðja konan hafi sagt sér að þau Madsen hafi rætt gerð „snuff“ myndar með sér. Las saksóknarinn þá upp ein skilaboð sem Madsen sendi henni.

 „Xx og ég erum með leynilegar áætlanir um það hvernig við getum verið „góð“ og verulega „vond við þig, ef náum að lokka þig í bátinn,“ sagði í skilaboðunum.

Heillaður af dauðanum

„Peter er heillaður af dauðanum. Ég man ekki í tengslum við hvað þetta var,“ segir hún.

„Ef þú heyrir alla sögu mína og Peters þá verða þeir enn meira sannfærðir um að hann sé fullkomlega bilaður,“ segir í sms skilaboðum sem hún sendi þriðju konunni og í skilaboðum sem sú sendi vitninu segir: „Daginn áður skrifuðum við Peter í gamni að það væri gaman að búa til „snuff“ mynd með þér í kafbátinum...“ 

Segir konan samband þeirra Madsen hafa verið óvenjulegt, en að hún hafi ekki upplifað að sér væri ógnað. Er saksóknari spyr hana um hvað sér finnist um hugmyndina um „snuff“ myndina nú, segist hún ekki hafa vitað á þeim tímapunkti hvað „snuff“ var. „En það kom mér ekki á óvart að þau vildu gera eitthvað með mér í kafbátinum, því við vorum búin að tala um það.“

Sá myndband af hálshöggnum manni í tölvu Madsen

Karlmaður sem starfaði á Copenhagen Suborbitals rannsóknarstofunni, þar sem Madsen var með aðstöðu til ársins 2014 er honum var ýtt út vegna samskiptaörðugleika, greindi réttinum frá því að hann hafi séð myndband af því er einstaklingur var hálshöggvinn á  tölvu Madsen.

Myndbandið hafi hann séð þegar hann uppfærði stýrikerfið á tölvu Madsen. „Þetta var myndband í mjög slæmum gæðum, en þetta líktist því að einhver væri hálshöggvin. Maðurinn var skorinn á háls þar sem hann hvíldi höfuðið á steini,“ sagði hann.

Segist hann aldrei hafa sagt Madsen hvað hann hafi séð.

Teikning af Madsen við skýrslutökuna í dómsalnum.
Teikning af Madsen við skýrslutökuna í dómsalnum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert