Tugir slasast í mótmælum í Katalóníu

Logarnir rísa hér frá gámi sem kveikt var í í …
Logarnir rísa hér frá gámi sem kveikt var í í mótmælum í miðborg Barcelona vegna handtöku Carles Puigdemont í Þýskalandi í gær. AFP

Hátt í hundrað manns slösuðust í mótmælum sem kom til í Katalóníu í gærkvöldi eftir að fréttist af handtöku Carles Puigdemont, fyrrverandi forseta Katalóníuhéraðs, í Þýskalandi í gær.

BBC segir 89 manns hið minnsta hafa slasast í átökum við lögreglu og að fjórir hafi verið handteknir.

Puigdemont  er eftirlýstur af spænskum yfirvöldum fyrir uppreisn og uppreisnaráróður vegna sjálfstæðiskosningar í Katalóníu í lok síðasta árs. Hann var handtekinn skömmu eftir að hann kom yfir landamæri Þýskalands frá Danmörku á leið sinni til baka til Belgíu þar sem hann hefur verið í sjálfskipaðri útlegð frá því í október á síðasta ári. Evrópsk handtökuskipan var gefin út á hendur Puigdemont á föstudag og mun hann fara fyrir dómara í Þýskalandi síðar í dag.

Til átaka kom milli lögreglu og mótmælenda. 89 hið minnsta …
Til átaka kom milli lögreglu og mótmælenda. 89 hið minnsta slösuðust í átökunum og fjórir voru handteknir. AFP

Í miðborg Barcelona hrópuðu mótmælendur „Frelsi fyrir pólitíska fanga“ og „Þetta er skammarleg Evrópa!“ á meðan þeir gengu að þýska sendiráðinu og skrifstofum framkvæmdaráðs Evrópusambandsins í borginni.

Spænska fréttastofan Efe telur um 55.000 manns hafa verið samankomna í miðborginni til að mótmæla.

Einnig var mótmælt í borginni Girona, þar sem að Puigdemont var borgarstjóri um hríð, og í bæjunum Tarragona og Lleida. Þá settu mótmælendur einnig upp vegahindranir á nokkrum stöðum.

Mikil spenna er í Katalóníu og hættu aðskilnaðarsinnar við að nefna næsta forseta heimastjórnarinnar á föstudag eftir að spænsk yfirvöld létu handtaka Jordi Turull, einn frambjóðanda til embættisins.

Hæstiréttur Spánar hefur úrskurðað að 25 leiðtogar aðskilnaðarsinna í Katalóníu skuli sæta ákæru fyrir uppreisn, fjárdrátt og fyrir að óhlýðnast ríkinu. Þeir neita hins vegar öllum slíkum ásökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert