Hönnuðu hugbúnað til að greina repúblikana

Christopher Wylie situr hér fyrir svörum hjá bresku þingnefndinni.
Christopher Wylie situr hér fyrir svörum hjá bresku þingnefndinni. AFP

Kanadíska hugbúnaðarfyrirtækið  AggregateIQ bjó til hugbúnað sem notaður var til að bera kennsl á kjósendur Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum síðasta haust.

Þetta hefur Reuters fréttastofan eftir Christopher Wylie, fyrrverandi starfsmanni Cambridge Analytica, sem undanfarið hefur greint frá því hvernig fyrirtækið nýtti sér persónugögn Facebook notenda m.a. til að hjálpa Donald Trump Bandaríkjaforseta að ná kjöri.

Hugbúnaðurinn fékk nafnið Ripon í höfuðið á bænum þar sem Repúblikanaflokkurinn var stofnaður árið 1854. Var hugbúnaðinum ætlað að gera kosningastjórum kleift að halda utan um kjósendagrunn sinn, beina spjótum sínum að ákveðnum kjósendum og til að standa fyrir atkvæðasmölun og skoðanakönnunum.

„Það eru nú raunverulegar sannanir fyrir því að AIQ hafi lokið við gerð Ripon, en það er hugbúnaðurinn sem nýtti algóriþman sem var unnin út frá Facebook upplýsingunum,“ sagði Wylie í yfirheyrslu fyrir breskri þingnefnd.

Reuters segir AggregateIQ ekki hafa svarað fyrirspurnum um fullyrðingar Wylie. Fyrirtækið sagði hins vegar Reuters um helgina að það það hefði ekki, né sé það, hluti af Cambridge Analytica og þá hafi það heldur aldrei gert samninga við fyrirtækið. Starfsemi AIQ standist allar laga- og reglugerðarkröfur og að það hafi aldrei viljandi tekið þátt í ólögregu athæfi.

Cambridge Analytica sagði hins vegar í dag að fyrirtækið  hafi ekki deilt Facebook-gögnunum með AggregateIQ, né heldur hafi það átt í neinum samskiptum við fyrirtækið frá því í desember 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert