Krefjast afsagnar Pútíns

Fólk safnaðist saman í borginni Kemerovo í dag til að …
Fólk safnaðist saman í borginni Kemerovo í dag til að minnast þeirra sem létust í eldsvoðanum á sunnudag en einnig til að mótmæla aðgerðarleysi stjórnvalda. AFP

Þúsundir komu saman í síberísku kola­námu­borg­inni Kemerovo í dag til að mótmæla aðgerðaleysi rússneskra stjórnvalda vegna eldsvoðans í versl­un­ar- og afþrey­ingar­miðstöð í borginni á sunnu­dag.

64 létust í eldsvoðanum, þar af 41 barn. Talið er að um 70 manns sé enn saknað og leit stendur enn yfir í rústunum. Foreldrar 11 ungmenna hafa birt mynd­ir af börn­um sín­um í grennd við rúst­ir versl­un­ar­miðstöðvar­inn­ar í von um að þau finn­ist á lífi.

Valdimír Pútín, forseti Rússlands, kom til Kemerovo fyrr í dag og segir hann orsök eldsvoðans mega rekja til „glæp­sam­legr­ar van­rækslu“. Mótmælendur krefjast afsagnar forsetans. Fjöldi mótmælenda segist ekki treysta yfirvöldum.

Mótmælin höfðu staðið yfir í um sjö klukkutíma þegar ríkisstjórinn Sergei Tsivilev kraup á kné fyrir framan fólkið og baðst fyrirgefningar. Fram kemur í frétt BBC að mótmælendur tóku afsökunarbeiðninni vel og klöppuðu fyrir Tsivilev.

Skipuð hefur verið sérstök rannsóknarnefnd vegna eldsvoðans og segir yfirmaður nefndarinnar að al­var­leg brot á bruna­varnareglum hafi átt sér stað og að bruninn sé rann­sakaður sem glæp­ur. Fimm manns hafa verið hand­tekn­ir vegna máls­ins, þeirra á meðal ör­ygg­is­vörður sem grunaður er um að hafa lokað neyðarút­göng­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert