„Reykjandi“ fíll veldur sérfræðingum heilabrotum

Það virðist helst sem fíllinn sé að reykja er hann …
Það virðist helst sem fíllinn sé að reykja er hann blæs öskunni frá sér. Ljósmynd/Wildlife Conservation Society

Myndband af villtum fíl sem blæs frá sér ösku hefur valdið náttúrulífssérfræðingum víða um heim mikilli undran.

Vinay Kumar, vísindamaður hjá náttúrulífssamtökunum Wildlife Conservation Society á Indlandi tók upp 48 sekúndna langt myndband af fílnum „reykjandi“ á ferð um Nagarhole skóginn í Karnataka fylki á Indlandi í apríl 2016.

Kumar sagði í samtali við BBC að hann hefði ekki gert myndbandið opinbert fyrr enn nú þar sem hann hefði ekki „alveg áttað sig á mikilvægi þess“.

Vísindamenn segja ekki vera ljóst af hverju fílinn er að blása frá sér ösku. „Þetta er fyrsta skráða myndbandsupptakan af villtum fíl sýna af sér slíka hegðun og þetta veldur sérfræðingum heilabrotum,“ segir í yfirlýsingu frá Wildlife Conservation Society samtökunum.

Kumar og teymi hans voru á ferð í skóginum snemma morguns til að fylgjast með eftirlitsmyndavélum sem þeir nota til að ná myndum af tígrisdýrum. Hann kom þá auga á fílinn í um 50 metra fjarlægð og byrjaði að mynda hann.

Svo virðist sem fíllinn borði fyrst kol úr leifum varðelds sem hafði logað á jörðinni og að hann blási því næst öskunni frá sér.

„Það sem við sáum þennan dag líkist því helst að fílinn væri að reykja – hann fyllti rana sinn af ösku og bar síðan að gini sínu og blés svo frá sér reykskýi,“ sagði Kumar.

Líffræðingurinn og fílasérfræðingurinn Varun R Goswami, sem hefur skoðað myndbandið vandlega, telur líklegast að fíllinn hafi ætlað sér að innbyrða viðarkolin og að hann hafi blásið frá sér öskunni sem fylgdi molunum sem hann týndi upp af jörðunni. Fílinn hafi svo borðað það sem eftir var.

Sagði hann vitað að villt dýr nýttu sér oft læknisfræðilegt gildi kola, sem þekkt eru fyrir að binda eiturefni.

„Kolin geta líka virkað sem hægðarlyf og hafa því tvöfalda virkni fyrir dýrin sem neyta þeirra,“ sagði Goswami.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert