Varð vegna „glæpsamlegrar vanrækslu“

Íbúar Kemerovo minnast hinna látnu með því að leggja blóm …
Íbúar Kemerovo minnast hinna látnu með því að leggja blóm og tuskudýr við brunastaðinn. 64 létust í eldinum. AFP

Eldsvoðinn í verslunar- og afþreyingamiðstöðinni í Kemerovo á sunnudag sem kostaði 64 manns lífið varð vegna „glæpsamlegrar vanrækslu“ að sögn Vladimír Pútíns Rússlandsforseta.

Pútín lét þessi orð falla er hann heimsótti brunarústirnar í gær og skammaðist hann, að sögn BBC, yfir vanrækslunni.

Rannsakendur eldsvoða hafa greint frá því að öryggisvörður hafi slökkt á brunaboðum þegar eldurinn kom upp og að ekki hafi verið hægt að komast að neyðarútgöngum þegar eldurinn kviknaði. Hafa rússneskir fjölmiðlar sagt frá því að neyðarútgangar í kvikmyndahúsinu hafi m.a. verið læstir til að koma í veg fyrir að fólk svindlaði sér inn í bíó.

Rússneska Interfax fréttastofan segir um 300 manns hafa safnast saman fyrir utan skrifstofur héraðsstjórnarinnar þar sem að fólkið hafi krafist afsagnar ráðamanna.

Eldsupptök liggja enn ekki fyrir, en yfirmaður rannsóknarnefndarinnar hefur talað um „alvarleg brot“ á brunavörnum og er málið nú rannsakað sem glæpur.

Mikinn og þykkan reyk lagði frá verslunarmiðstöðinni. Brunavarnir í húsinu …
Mikinn og þykkan reyk lagði frá verslunarmiðstöðinni. Brunavarnir í húsinu voru í ólestri og neyðarútgangar m.a. læstir. AFP

„Þetta er ekki stríðssvæði eða óvæntur metangasbruni í námu,“ sagði Pútín er hann lagði krans að brunarústunum. „Fólk, börn komu hingað til að slappa af, Við erum að tala um lýðfræði og að missa svona marga vegna hvers? Vegna glæpsamlegrar vanrækslu og óvandvirkni.“

Breytti húsinu í gildru

Upptök eldsins voru á einni af efri hæðum hússins, en mikill mannfjöldi var í verslunum, kvikmynda- og keilusölum hússins þegar eldurinn kom upp þar sem að vetrarfrí er nú í rússneskum skólum.

Myndbandsupptökur hafa verið birtar á rússneskum samfélagsmiðlum sem sýna fólk stökkva út um glugga hússins til að flýja frá eldtungunum.

Fimm manns hafa verið handteknir vegna málsins, m.a. sá starfsmaður sem grunaður er um að hafa lokað neyðarútgöngum.

Anton Gorelkin, ein af stjórnmálamönnum héraðsins, hefur bent á í Facebook færslu að auk þess sem  neyðarútgangar hafi verið lokaðir „sem breytti húsinu í gildru“ að þá „var heldur ekkert skipulag á rýmingu“. Þá hafi vatnsúðar í lofti sem hefðu getað dregið úr logunum í upphafi ekki virkað.

„Af hverju voru dyrnar læstar, það er spurningin,“ sagði Vladimir Chernov, aðstoðarfylkisstjórinn. Rússneskir fjölmiðlar höfðu eftir honum á sunnudag að líklega væru eldsupptökin í trampólínherberginu. Fyrstu grunsemdir beinist að því að barn með kveikjara hafi valdið því að kviknaði í gúmmífroðu í trampólínherberginu.

Rossiya 24 sjónvarpsstöðin segir hins vegar öllu líklegra að rafmagnsbilun hafi valdið eldinum, líkt og í flestum öðrum bannvænum eldsvoðum í landinu.

Þriggja daga sorgartímabili hefur verið lýst yfir í héraðinu og hafa margir íbúar kosið að minnast fórnarlambanna með því að leggja blóm og tuskudýr að brunastaðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert