Fyrstu fórnarlömb brunans borin til grafar

Þjóðarsorg ríkir  í Rússlandi í dag vegna þeirra 64 sem fórust í eldsvoða í verslunar- og afþreyingarmiðstöð í síberísku borginni Kemerovo á sunnudag.

Staðfest hefur verið að 41 barn hafi verið í hópi þeirra 64 sem létust, en ættingjar segja tuga manna enn vera saknað eftir brunann að því er BBC greinir frá.

Fyrstu fórnarlömb brunans verða borin til grafar í dag og efnt hefur verið til minningarstunda víða um Rússland. Mikill fjöldi fólks hefur líka lagt leið sína að brunarústunum undanfarna daga og lagt þar blóm og tuskudýr til minningar um fórnarlömbin.

Þúsundir mótmæltu í Kemerovo í gær, en mikil reiði ríkir í borginni vegna lélegra eldvarna og brota á þeim í verslunarmiðstöðinni. Hafa rannsakendur m.a. greint frá því að brunaboði hafi verið bilaður og neyðarútgangar læstir.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði er hann heimsótti brunarústirnar í gær að eldsvoðinn skrifaðist á „glæpsamlega vanrækslu“.

Öryggisverðir sem áttu að hjálpa fólki að komast út í neyðartilfellum voru meðal þeirra fyrstu sem flúðu eftir að eldurinn kviknaði.

Fimm manns hafa verið handteknir í tengslum við brunann.

Syrgjendur koma úr jarðarför eins fórnarlambs eldsvoðans í verslunarmiðstöðvarinnar. Ættingjar …
Syrgjendur koma úr jarðarför eins fórnarlambs eldsvoðans í verslunarmiðstöðvarinnar. Ættingjar segja tuga enn vera saknað. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert