Zuckerberg mun bera vitni fyrir þingi

Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, undirbýr nú vitnisburð sinn áður en …
Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, undirbýr nú vitnisburð sinn áður en hann kemur fyrir þingheim. AFP

Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, mun bera vitni fyrir Bandaríkjaþingi. Þetta hefur CNN  sjónvarpsstöðin eftir heimildamönnum hjá Facebook. Zuckerberg hefur ítrekað verið beðinn um að koma til yfirheyrslu hjá þingnefndum í Bandaríkjunum og Evrópu, eftir að greint var frá því að persónuupplýsingar Facebook-notenda hefðu verið notaðar af fyrirtækinu Cambridge Analytica, m.a. til að aðstoða Donald Trump við að ná kjöri sem Bandaríkjaforseti.

Segja heimildamenn CNN Zuckerberg nú hafa sætt sig við að hann muni þurfa að svara fyrir málið hjá Bandaríkjaþingi innan skamms og að forsvarsmenn fyrirtækisins séu nú að undirbúa vitnisburð hans. Þrýstingurinn frá þingmönnum, fjölmiðlum og almenningi sé orðin slíkur að ekki sé hægt að réttlæta það að mæta ekki.

Innan Facebook telja menn líka að samþykki Zuckerberg að mæta fyrir þingið, þá muni það setja aukin þrýsting á forsvarsmenn Google og Twitter að gera slíkt hið sama, en formaður dómsmálanefndar þingsins hefur boðið forsvarsmönnum allra þriggja fyrirtækja til yfirheyrslu um gagnaleynd þann 10. apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert