Dauðsföll á Gaza verði rannsökuð

Ekki náðist samstaða um sameiginlega yfirlýsingu aðildarríkja öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna á neyðarfundi þess um mannskæð átök á Gaza sem brutust út í kjölfar mótmæla  Palestínumanna við landamæragirðingar ísraelskra stjórnvalda á svæðinu. Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, vill að óháð og gegnsæ rannsókn verði gerð á því mannfalli sem varð á Gaza-ströndinni í gær. 

Tugþúsundir íbúa á Gaza tóku þátt í mótmælum í nágrenni landamæragirðinganna í gær og felldu ísraelskir hermenn að minnsta kosti sautján þeirra í átökunum. Hundruð særðust.

Um er að ræða mannskæðustu átök til orðið hafa á Gaza frá árinu 2014.

Ísraelsher gerði árásir á þrjár bækistöðvar Hamas-samtakanna á Gaza-ströndinni með skotum úr skriðdrekum og úr lofti. Sagði herinn um að ræða andsvar við árásartilraun á hermenn við landamærin.

Hópur kvenna mótmælir við landamæragirðingar Ísraelsmanna.
Hópur kvenna mótmælir við landamæragirðingar Ísraelsmanna. AFP

Mótmælendur söfnuðust saman víða innan hinnar innlyksa Gaza-strandar. Flestir héldu sig í hæfilegri fjarlægð frá landamæragirðingum Ísraela en lítill hópur kom í návígi við þær og skutu ísraelskir hermenn að hópnum og beittu táragasi til að tvístra honum. Drónar voru notaðir til að dreifa táragasinu yfir fólkið og er þetta, að því er talsmaður lögreglunnar segir, í fyrsta sinn sem slíkri aðferð er beitt.

Heilbrigðisyfirvöld á Gaza segja að Ísraelsher hefði fellt sextán Palestínumenn með aðgerðum sínum í gær. Meira en 1.400 særðust þar af urðu 758 fyrir byssuskotum. Aðrir voru skotnir með gúmmíkúlum eða þurftu aðhlynningu vegna táragassins.

Palestínumenn saka Ísraelsmenn um að beita óhóflegu valdi gegn mótmælendum. Ísraelsher segir hins vegar að fjöldamótmælin hafi verið blekking til að koma skæruliðum yfir landamærin eða til að auðvelda þeim árásir. „Þetta eru ekki friðsamleg mótmæli,“ sagði hershöfðingi Ísraelsmanna í samtali við fréttamenn í gær. Hann taldi að um 30 þúsund manns hefðu tekið þátt í mótmælunum í gær. Hann sagði að óeirðaseggir hefðu kveikt í dekkjum og kastað bensínsprengjum og steinum að landamæragirðingunum og að hermenn hefðu svarað með viðeigandi aðgerðum. 

Menn úr hópi mótmælenda skutu af teygjubyssum í átt að …
Menn úr hópi mótmælenda skutu af teygjubyssum í átt að landamæragirðingunum. AFP

„Það er hætta á að ástandið eigi eftir að versna á næstu dögum,“ segir Taye-Brook Zerihoun, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Sameinuðu þjóðunum. 

Mótmælendurnir krefjast þess að hundruð þúsunda Palestínumanna sem voru hraktir eða flúðu heimili sín á þeim tíma sem Ísraelsríki var stofnað árið 1948 fái að snúa til síns heima. 

Til stendur að mótmælin standi í sex vikur eða þar til hið nýja bandaríska sendiráð í Jerúsalem verður opnað 14. maí.

Talið er að um þrjátíu þúsund manns hafi mótmælt á …
Talið er að um þrjátíu þúsund manns hafi mótmælt á Gaza í gær. Mótmælin munu standa í sex vikur. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert