Malala snéri óvænt heim

Malala Yousafzai kom í þyrlu til heimsóknar sinnar til Swat-dalsins …
Malala Yousafzai kom í þyrlu til heimsóknar sinnar til Swat-dalsins í dag. AFP

Malala Yousafzai heimsótti Swat-dalinn í dag í fyrstu för sinni til heimlandsins Pakistans í yfir fimm ár. Í dalnum, þar sem hún ólst upp, var hún skotin í höfuðið af talibönum sem enn eru fyrirferðarmiklir á þessum slóðum. 

„Ég yfirgaf Swat-dalinn með lokuð augun en nú er ég komin aftur með augun opin,“ sagði hún í samtali við blaðamann AFP-fréttastofunnar og vísaði þar til þess að er hún var flutt frá dalnum eftir árásina árið 2012 hafi hún verið meðvitundarlaus.

„Ég er gríðarlega glöð. Draumur minn hefur orðið að veruleika. Friður er kominn á í Swat-dalnum vegna ómetanlegra fórna bræðra minna og systra,“ sagði hún fyrir utan skóla í bænum Mingora en þar var hún í fylgd með pakistönskum hermönnum. 

Kona tekur mynd af sér með Malölu Yousafzai í Islamabad.
Kona tekur mynd af sér með Malölu Yousafzai í Islamabad. AFP

Ferðin um Swat-dalinn var stutt en táknræn fyrir hinn tvítuga friðarverðlaunahafa Nóbels. Malala hefur oft nefnt Swat-dalinn sem dæmi um árangur gegn öfgahópum. 

Með Malölu í för voru faðir hennar, móðir og tveir bræður. Ekki var greint fyrirfram frá ferðinni. Malala flaug þangað með þyrlu frá Islamabad og hitti vini og fjölskyldu áður en hún fór í heimsókn í skóla rétt fyrir utan stærstu borg svæðisins. Til stóð að hún myndi ávarpa nemendur skólans en Malala stoppaði stutt og flaug að heimsókninni lokinni aftur til Islamabad. 

Fjölskylda Malölu bjó í borginni Mingora og var Malala í skólabílnum er árásarmaður réðst að henni þann 9. október árið 2012 og spurði: Hver er Malala? Hann skaut hana að því loknu.

Hún var fyrst flutt á hersjúkrahús í Pakistan en svo flutt á sjúkrahús í Birmingham. Hún var í mikilli lífshættu og þykir bati henni kraftaverki líkastur. Í kjölfarið hóf hún að berjast fyrir menntun kvenna og auknum mannréttindum og árið 2014 hlaut hún friðarverðlaun Nóbels, aðeins sautján ára gömul. 

Fjallað hefur verið um heimsókn Malölu til Pakistans í fjölmiðlum …
Fjallað hefur verið um heimsókn Malölu til Pakistans í fjölmiðlum um allan heim. AFP

Malala stundar nú nám við Oxford-háskóla. Hún fór til Pakistans í fyrsta skipti frá árásinni fyrr í vikunni. Á fimmtudag flutti hún sjónvarpsávarp þar í landi og brast þá í grát. Hún hét því að setjast aftur að í Pakistan að loknu námi sínu. 

 Mikil virðing er víða borin fyrir Malölu og hennar störfum í þágu kvenna og menntunar. En í heimalandinu er hún þó af ýmsum gagnrýnd fyrir að vera boðberi vestrænna gilda. 

Talibanar rændu völdum í Swat-dalnum árið 2007. Áður hafði svæðið verið vinsæll viðkomustaður ferðamanna í Pakistan.

Vígamennirnir stjórnuðu með harðri hendi og vildu t.d. ekki að stúlkur gengju í skóla. Herinn kom þeim svo frá völdum og nýverið hófu ferðamenn að fara aftur á þessar slóðir. Ástandið er þó enn viðkvæmt og til átaka hefur komið milli vígamanna og hermanna, m.a. í febrúar á þessu ári. Þá féllu ellefu hermenn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert