Þáttastjórnandi Fox í frí

David Hogg og Laura Ingraham.
David Hogg og Laura Ingraham. AFP

Þáttastjórnandinn Laura Ingraham mun taka sér viku frí frá störfum á Fox-sjónvarpsstöðinni. Tilkynnti hún þetta sjálf í lok þáttar síns á föstudagskvöldið en hún hefur verið gagnrýnd harðlega síðustu daga vegna ummæla sem hún lét falla um nemanda sem komst lífs af úr skortárásinni í Portland í Flórída. Margir auglýsendur höfðu ákveðið að hætta að auglýsa í þætti hennar eftir ummælin. Í lok þáttar síns The Ingraham Angle á föstudag kvaddi hún áhorfendur með þeim orðum að hún væri komin í frí sem hún ætlaði að eyða með börnum sínum. Talsmaður Fox segir að fríið hafi verið löngu ákveðið. 

Ummælin umdeildu lét Ingraham falla á Twitter. Þar skrifaði hún að David Hogg, sem barist hefur fyrir hertari vopnalögum í Bandaríkjunum í kjölfar skotárásarinnar í skólanum hans, hefði verið hafnað af fjórum háskólum. Sautján létust í árásinni í Portland í síðasta mánuði.

Hogg tók þá til sinna ráða og bað fylgjendur sína á Twitter að hvetja auglýsendur í þætti Ingraham til að sniðganga þátt hennar. 

Eftir að tvö fyrirtæki höfðu sagt upp auglýsingasamningum við Fox baðst Ingraham loks afsökunar. „Ég biðst afsökunar ef ég hef móðgað eða sært hann eða önnur hugrökk fórnarlömb í Parkland,“ skrifaði hún m.a. á Twitter. 

Hogg sagðist lítið mark taka á afsökunarbeiðninni og sagðist telja hana tilkomna þar sem peningar væru í húfi.

Á föstudag var ljóst að fjórtán fyrirtæki höfðu ákveðið að hætta að auglýsa í  þættinum.

Frétt CNN um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert