Víðtækt hatur í stuðningshópum Corbyn

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins.
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins. AFP

Ný skýrsla um helstu stuðningshópa Jeremy Corbyn á Facebook hefur afhjúpað mikinn fjölda hatursfullra ummæla sem beinast gegn minnihlutahópum og hvetja til ofbeldis gegn stjórnmálamönnum. 

Þetta kemur fram í umfjöllun The Times um skýrsluna sem er afrakstur tveggja mánaða samstarfs við uppljóstrara sem fengu aðgang að tuttugu stærstu stuðningshópum Corbyn á Facebook. Rannsóknarvinnan afhjúpaði fleiri en tvö þúsund hatursfull ummæli í garð ýmissa minnihlutahópa, sérstaklega í garð gyðinga.

Skýrslan hefur leitt í ljós að tólf starfsmenn sem starfa undir Corbyn og John McDonnell, einum af skuggaráðherrum Verkamannaflokksins, séu meðlimir í lokuðum hópum á Facebook þar sem fyrirfinnast hatursfull ummæli. Stuðningshópar Corbyn á Facebook eru sagðir hafa spilað lykilhlutverk í því að koma Corbyn í leiðtogasætið og góðu gengi Verkamannaflokksins í síðustu kosningum.

Í hópunum má finna færslur þar sem Adolf Hitler er lofaður, helförin er kölluð lygi og hakakrossinn er teiknaður á fána Ísraels. Aðrar færslur hvetja til ofbeldis gegn stjórnmálamönnum, þar á meðal Theresu May forsætisráðherra.

Í tíð sinni sem leiðtogi Verkamannaflokksins hefur Corbyn verið hvattur til þess að uppræta gyðingaandúð innan flokksins. Í svari flokksins við fyrirspurn The Times kemur fram að hóparnir tengist ekki flokknum og að flokkurinn vinni markvisst gegn andúð á gyðingum. 

mbl.is