Hætta að trúa fórnarlömbum sjálfkrafa

Cressida Dick lögreglustjóri Lundúna, segir hlutverk lögreglu að rannsaka ekki …
Cressida Dick lögreglustjóri Lundúna, segir hlutverk lögreglu að rannsaka ekki að leggja trúnað á ákærur án frekari skoðunar. AFP

Lundúnalögreglan hefur nú látið af þeirri stefnu að trúa sjálfkrafa því að fórnarlömb kynferðisbrota séu að segja satt frá. Breska dagblaðið The Times fjallar um málið og segir ástæðuna vera röð mistaka við rannsókn kynferðisbrota.

Cressida Dick, lögreglustjóri Lundúnalögreglunnar, kveðst hafa sagt lögreglumönnum að þeir verði að halda opnum huga þegar ásakanir eru bornar fram. Hlutverk þeirra sé að rannsaka málið, ekki trúa ásökunum í blindni.

„Maður byrjar með algjörlega opin huga. Algjörlega,“ sagði Dick. „Það er mjög mikilvægt að fórnarlambinu finnist því vera trúað. Okkar staða er sú að við erum vitaskuld líkleg til að trúa viðkomandi, en við erum rannsakendur og við verðum að rannsaka.“

Málið viðkvæmt fyrir lögreglu

Times segir málið vera með þeim viðkvæmari, en árið 2011 var gefin út stefna fyrir allt Bretland sem lögreglu var fyrirskipað að leggja sjálfkrafa trúnað á orð meintra fórnarlamba . Með þessu átti að hvetja fórnarlömb, ekki hvað síst fórnarlömb kynferðisbrota, að gefa sig fram í trausti þess að þeim yrði trúað.

Var stefnan afleiðing þess að lögregla hafði látið hjá líða að rannsaka ítarlega ásakanir um kynferðisbrot þáttastjórnandans Jimmy Savile, en eftir andlát hans kom í ljós að hann hafði verið með umsvifameiri barnaníðingum Bretlands.

Lundúnalögreglan hefur hins vegar einnig verið gagnrýnd nýlega eftir að lögreglumenn sögðu fullyrðingar manns, sem aðeins er þekktur undir nafninu Nick, um samtök kynferðisbrotamanna í breska þinghúsinu Westminister, vera „trúanlegar og sannar“. Er mál mannsins nú á borði saksóknara krúnunnar sem er að íhuga að ákæra Nick fyrir rangfærslur, eftir að sýnt var fram á að ásakanirnar voru rangar.

Snýst ekki bara um fórnarlömbin

Þá hefur Lundúnalögreglan einnig verið gagnrýnd eftir að fjöldi nauðgunarréttarhalda skiluðu ekki dómi, þar sem að verjendum hafði ekki verið gerð full grein fyrir öllum sönnunargögnum.

Dick sagði lögregluna líka hafa verið gagnrýnda fyrir að hafa ekki nógu opin huga. „Okkar vinna hvað rannsóknina varðar er að vera réttlát, hlutlaus og þar sem að við á að ná fram réttlæti og auðvita að styðja fórnarlömbin. En þetta snýst ekki bara um fórnarlömbin,“ sagði hún.

MeToo byltingin hefði vissulega beint athyglinni að kynferðislegri misnotkun. „Ef ég tala sem lögga, en ekki sem almennur borgari þá beinist áhugi minn að glæpnum. Ef þetta gerðist fyrir löngu síðan, er ómerkilegt eða ekki líklegt til að skila sakfellingu, þá ætla ég ekki að eyða miklu í það,“ sagði hún. „Hvað síðan varðar misskilning milli tveggja einstaklinga. Klaufaleg hegðun einhvers sem er hrifin af einhverjum öðrum. Það er ekki mál fyrir lögregluna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert