Winnie Mandela: Umdeild hetja

Margir litu á Winnie Madikizela-Mandela, sem lést í gær eftir langvinn veikindi, sem eins konar móður Suður-Afríku vegna hjónabands hennar og Nelsons Mandela og baráttu hennar gegn aðskilnaðarstefnunni í landinu. Hún var engu að síður umdeild kona vegna fortíðar sinnar.

Winnie Mandela árið 2010.
Winnie Mandela árið 2010. AFP

Öflugur aðskilnaðarsinni

Winnie var skírð Nomzamo Winfried Zanyiwe Madikizela en var alltaf þekkt sem Winnie. Hún var gift Nelson í 38 ár en mestan þann tíma voru þau aðskilin því hann sat í fangelsi í 27 ár. Winnie ól því dætur þeirra tvær upp einsömul, á sama tíma og hún hélt á lífi pólitískum draumi eiginmanns síns um að losna undan oki hvíta minnihlutans í landinu.

Heimurinn fylgdist með því árið 1990 þegar Nelson Mandela gekk loksins út úr fangelsinu, haldandi í höndina á Winnie. Þau hættu engu að síður saman aðeins tveimur árum síðar og skildu árið 1996 eftir lagaflækjur þar sem kom í ljós að hún hafði átt í ástarsambandi með ungum lífverði.

Hvort sem hún var með eða án Nelsons byggði Winnie upp ímynd sem sterkur, glæsilegur og opinskár svartur aðskilnaðarsinni sem naut töluverðs fylgis á svæðum þar sem aðskilnaður ríkti.

Winnie Mandela ræðir við Willy Brandt, fyrrverandi kanslara Þýskalands, í …
Winnie Mandela ræðir við Willy Brandt, fyrrverandi kanslara Þýskalands, í Jóhannesarborg árið 1986. AFP

Rannsakaði ungbarnadauða

Winnie fæddist 26. september 1936 í þorpinu Mbongweni, sem núna kallast Eastern Cape.

Hún lauk háskólanámi, sem var sjaldgæft á meðal svartra kvenna á þessum tíma, og varð fyrsti löggilti félagsráðgjafinn á sjúkrahúsinu Baragwanath í Jóhannesarborg.

Rannsókn hennar á ungbarnadauða í hverfinu Alexandra, þar sem svartir bjuggu, vakti mikla athygli en samkvæmt niðurstöðu hennar kom í ljós að 10 börn létust af hverjum 1.000 sem fæddust. „Ég tók að átta mig á þeirri hörmulegu fátækt sem flestir þurftu að búa við og hinum hrikalegu aðstæðum í þessu óréttláta kerfi,“ sagði hún eitt sinn.

Winnie Mandela árið 1987.
Winnie Mandela árið 1987. AFP

Hitti Nelson á strætóstoppistöð

Á þessum tíma var Nelson Mandela kvæntur sinni fyrstu eiginkonu. Hann hitti Winnie á strætóstoppistöð í Soweto þegar hún var 22 ára. Þau gengu í hjónaband í júní 1958 en fljótlega þurfti Nelson að fara í felur vegna ofsókna af hálfu yfirvalda.

Í október sama ár var Winnie handtekin í fyrsta sinn fyrir að mótmæla lögum sem bönnuðu svörtum að láta sjá sig á ákveðnum svæðum. 

Eftir að Nelson var dæmdur í lífstíðarfangelsi árið 1964 var Winnie einnig stungið í fangelsi með reglulegu millibili í von um að brjóta Nelson niður. Öryggissveitir stjórnvalda pyntuðu hana, reyndu að loka hana inni, hleyptu henni ekki út úr hverfinu Soweto og þvinguðu hana svo til að búa í bænum Brandfort þar sem húsið hennar var tvívegis sprengt upp.

Hún fékk sjaldan að heimsækja eiginmann sinn í fangelsið og þegar það gerðist var alltaf gler á milli þeirra.

Nelson og Winnie Mandela árið 1991.
Nelson og Winnie Mandela árið 1991. AFP

Slæmt orðspor 

Á þessum tíma var Winnie í fararbroddi í baráttunni gegn aðskilnaðarstefnunni og hvatti hún stúdenta í Soweto árið 1976 til að „berjast til síðasta blóðdropa“.

Á níunda áratugnum var herská nálgun hennar talin líta illa út fyrir Nelson og frelsishreyfinguna. Hún hafði safnað í kringum sig hópi lífvarða sem kölluðust Mandela United Football Club og voru þekktir fyrir að beita ofbeldi.

Winnie var tengd við ofbeldisverknað sem kallaðist „necklacing“ þegar grunaðir svikarar voru brenndir lifandi eftir að bíldekk sem bensíni hafði verið skvett yfir var sett yfir höfuð þeirra og kveikt í.

Winnie Mandela á síðasta ári ásamt Jacob Zuma, þáverandi forseta …
Winnie Mandela á síðasta ári ásamt Jacob Zuma, þáverandi forseta Suður-Afríku, Cyril Ramaphosa þáverandi varaforseta (til hægri). AFP

Slæmt orðspor hennar hlaut byr undir báða vængi eftir ræðu sem hún hélt árið 1986 þar sem hún lýsti því yfir að „með eldspýtnastokkum okkar og hálsmenum munum við frelsa þetta land“.

Árið 1991 var Winnie dæmd fyrir mannrán og líkamsárás eftir að Stompie Moeketsi, 14 ára piltur, var drepinn. Moeketsi, sem var sakaður um að vera uppljóstrari, var myrtur af lífvörðum hennar árið 1989.

Fangelsisdómi hennar var breytt í sektargreiðslu og Winnie neitaði aðild að morðinu við yfirheyrslur.

Winnie minnst fyrir utan heimili hennar í Orlando í Soweto.
Winnie minnst fyrir utan heimili hennar í Orlando í Soweto. AFP

Rekin fyrir óhlýðni 

Hún starfaði sem aðstoðarráðherra í ríkisstjórn Nelsons Mandela en var rekin fyrir óhlýðni og færð neðar í goggunarröðina í flokki sínum.

Árið 2003 var hún dæmd fyrir fjársvik en kom pólitískum ferli sínum á rétt ról þegar hún komst á þing eftir kosningar árið 2009.

Svarthvít ljósmynd af Winnie Mandela.
Svarthvít ljósmynd af Winnie Mandela. AFP

Bjó yfir baráttuanda

Þrátt fyrir að hafa sagt í blaðaviðtali árið 2010 að Nelson hafi valdið svörtu fólki í Suður-Afríku vonbrigðum með „slæmum samningi“ var hún hjá honum síðustu mánuðina áður en hann lést. 

Í áttræðisafmæli hennar hafði þáverandi varaforseti Suður-Afríku, Cyril Ramaphosa, sem nú er orðinn forseti, þetta að segja um hana: „Winnie mamma hefur lifað ríku og viðburðaríku lífi. Sigrar hennar og sá mótbyr sem hún hefur lent í hafa verið í samræmi við baráttu okkar fyrir frelsi.“

Syrgjendur Winnie söfnuðust saman við heimili hennar í Soweto eftir að hún lést og minntust hennar. Fram kom í yfirlýsingu vinstriflokksins EFF að hún hefði búið yfir baráttuanda. Hún hefði ávallt verið tilbúin til að berjast fyrir tilveruréttri svartra, jafnvel með vopnum, gegn „banvænni og illri aðskilnaðarstefnunni“.

Minningarathöfn um Winnie verður haldin miðvikudaginn 11. apríl og jarðarför hennar fer fram þremur dögum síðar. 

mbl.is