Hafði sakað YouTube um ritskoðun

Nasim Aghdam, sem skaut og særði þrjá í höfuðstöðvum YouTube í Kaliforníu í gær, hafði sakað fyrirtækið um mismunun. Hún fannst látin inni í byggingunni og er talið að hún hafi svipt sig lífi. Mikil hræðsla greip um sig meðal starfsmanna YouTube er skothríðin hófst er fólk reyndi í ofboði að flýja.

Fréttamiðlar vestanhafs segja að hin 39 ára gamla Aghdam hafi framleitt myndbönd er tengdust dýravernd. Hún hafi hins vegar sakað YouTube um að ritskoða efni sitt.

Nasim Aghdam lýsti sjálfri sér sem íþróttamanni, listamanni og sagðist …
Nasim Aghdam lýsti sjálfri sér sem íþróttamanni, listamanni og sagðist vera vegan.

„Það er ekkert tjáningarfrelsi í hinum frjálsa heimi og þú verður kúgaður fyrir að segja sannleikann sem kerfið styður ekki,“ skrifaði hún m.a. á vefsíðu sína að því er fram kemur í San Fransisco Chronicle. „Það er ekki jafnrétti til að eflast á YouTube eða á öðrum síðum sem deila myndböndum.“

Sky-sjónvarpsstöðin er meðal þeirra miðla sem birt hafa nafn Aghdam. Þar kemur fram að hún hafi sakað YouTube um að gera efni hennar ósýnilegt flestum. „Mér hefur verið mismunað og efnið mitt síað og ég er ekki sú eina,“ segir Sky að hún hafi m.a. sagt.

36 ára gamall maður er enn í lífshættu eftir árásina. 32 ára kona er alvarlega særð og þriðja fórnarlambið, 27 ára kona, er sögð á batavegi.

Einn starfsmaður YouTube segir í samtali við Sky að hún hafi séð konuna skjóta á verönd fyrir utan bygginguna. „Ég kallaði „árásarmaður“ og allir fóru að hlaupa.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert