Harka hlaupin í deilu Bandaríkjanna og Kína

Bandarískt vín er á meðal þeirra vöruflokka sem Kínverjar hafa …
Bandarískt vín er á meðal þeirra vöruflokka sem Kínverjar hafa nú lagt 25% innflutningstoll á. Tollastríð virðist í uppsiglingu á milli ríkjanna tveggja. AFP

Bandarísk yfirvöld tilkynntu í gærkvöldi að áformað væri að leggja innflutningstolla á yfir 1.300 kínverskar vörur og vöruflokka, meðal annars sjónvörp, lækningatæki, flugvélavarahluti og rafhlöður. Í dag hafa Kínverjar svo svarað, en stjórnvöld í Peking tilkynntu í morgun að 25% innflutningstollar yrðu lagðir á 106 vöruflokka frá Bandaríkjunum innan skamms.

Viðskipti með þessa 106 vöruflokka frá Bandaríkjunum til Kína nema um 50 milljörðum bandaríkjadala á ári, eða um 5.000 milljörðum íslenskra króna. Viðskiptin með vöruflokkana 1.300 frá Kína sem Bandaríkjamenn hyggjast leggja innflutningtolla á nema um það bil sömu upphæð á ársgrundvelli og því má segja að þarna sé um beint svar kínverskra stjórnvalda að ræða.

Hlutabréfamarkaðir í Evrópu hafa lækkað vegna þessara tíðinda, en samkvæmt frétt BBC kom það kom mörgum á óvart hve fljótt kínversk stjórnvöld brugðust við.

Samkvæmt frétt New York Times eru þær bandarísku vörur sem Kínverjar hyggjast nú leggja tolla á aðallega vörur sem koma frá ríkjum þar sem Repúblikanaflokkurinn hefur ítök. Þykir það benda til þess að stjórnvöld í Peking vonist til þess að stjórnmálamenn í ríkjunum reyni að fá Donald Trump Bandaríkjaforseta til að falla frá efnahagsaðgerðum sínum gegn Kína.

Stjórnvöld í Washington segja að aðgerðir þeirra séu hugsaðar til þess að refsa Kínverjum fyrir viðskiptahætti þeirra, en Bandaríkjamenn hafa gagnrýnt hugverkaþjófnað, framleiðslu á eftirlíkingum og ósanngjarnar ívilnanir stjórnvalda, sem hafi neikvæðar afleiðingar á bandarísk fyrirtæki sem eru í samkeppni við kínversk framleiðslufyrirtæki.

Þessar nýjustu fyrirætlanir ríkjanna tveggja eru til marks um að aukin harka sé að færast í viðskiptadeiluna þeirra á milli. Viðskiptaverðmæti þeirra vöruflokka sem ríkin hafa nú tilkynnt að tollar verði lagðir á er samanlagt um 100 milljarðar bandaríkjadala á ársgrundvelli.

Áður höfðu verndartollar Bandaríkjamanna á ál og stál verið lagðir á innflutning að verðmæti 20 milljóna bandaríkjadala. Svar Kínverja við þeim tollum var svo að leggja tolla á vörur og vöruflokka sem fluttir eru inn til Kína frá Bandaríkjunum fyrir 3 milljarða bandaríkjadala árlega.

mbl.is