Ósátt við forsíðuuppslátt

Forsíðan umdeilda.
Forsíðan umdeilda.

Hákon krónprins Noregs og eiginkona hans Mette-Marit eru ósátt við að slúðurblaðið Se og Hør hafi fjallað um son Mette-Marit, Marius Borg Høiby, á forsíðu. Fyrirsögn umfjöllunar blaðsins er „Kærastan er Playboy-fyrirsæta“.

Í yfirlýsingu frá höll þeirra hjóna segir að Marius hafi ávallt viljað vera utan sviðsljóssins en hann var um tveggja ára er móðir hans giftist krónprinsi Noregs. Hjónin segja að norskir fjölmiðlar hafi þar til nú virt þessar óskir hans. Því valdi forsíða Se og Hør vonbrigðum. 

Hákon og Mette-Marit segja að kærasta Mariusar hefði átt að sleppa við að lífi hennar væri slegið upp með þessum hætti á forsíðu. „Við þekkjum Julianne [Snekkestad] sem harðduglega stúlku,“ segir í yfirlýsingunni.

Talsmaður konungsfjölskyldunnar segir hjónin ekki búin að ákveða hvort þau kæri málið til fjölmiðlanefndar Noregs. 

Ritstjóri Se og Hør hefur varið ákvörðun sína um að slá sambandi Mariusar og kærustu hans upp með þessum hætti. Hann segist sýna því skilning að krónprinsessan Mette-Marit vilji hlífa syni sínum og kærustu hans en að sama skapi sé það sín skoðun að málið veki áhuga almennings. „Se og Hør skrifaði jákvæða frétt um nýtt kærustupar og gaf aldrei í skyn að Snekkestad væri ekki harðdugleg.“

Frétt norska ríkisútvarpsins um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert