Óvenjulegir vinir elska fjallgöngur

Eigandi dýranna telur að kötturinn Baloo haldi að Henry sé …
Eigandi dýranna telur að kötturinn Baloo haldi að Henry sé mamma hans. Mynd/Skjáskot af Instagram

Bestu vinirnir Henry og Baloo eiga ýmislegt sameiginlegt. Þeim var báðum bjargað af götunni og báðir elska þeir að fara í langa göngutúra úti í náttúrunni. Það sem gerir þá sérstaka og hefur orðið til þess að þeir eiga sér fjölda aðdáenda sem fylgjast með lífi þeirra, er sú staðreynd að þeir félagar eru hundur og köttur.

Tæplega hálf milljón manna fylgist nú með ævintýrum Henry og Baloo á samfélagsmiðlinum Instragram, en þeir fara gjarnan í fjallaferðir með eigendum sínum um stórfengleg fjöllin í Colorado. Fjallað var um hina óvenjulegu útivistarfjölskyldu á vef BBC.

Cynthia getur eytt meiri tíma með Henry og Baloo eftir …
Cynthia getur eytt meiri tíma með Henry og Baloo eftir að hún hætti að vinna. Mynd/Skjáskot af Instagram

Eigendur dýranna, Cynthia Bennett og Andre Siblisky, eru furðu lostinn yfir vinsældum Instagram-síðunnar og þykir þeim áhuginn nánast fjarstæðukenndur. Þau eru fædd og uppalin í New-Hamshire og Texas en eru bæði mikið útivistarfólk og vildu komast nær náttúrunni. Þau ákváðu því að flytja til Colorado þar sem fjallgöngur og fjallaferðir urðu fljótlega að þeirra lífsstíl. Þeim fannst hins vegar eitthvað vanta til að fullkomna fjölskylduna og ákváðu því að taka að sér hund sem hafði dvalið í dýraathvarfi.

Fyrir valinu var stór blendingur; blanda af Þýskum fjárhundi, Husky, Boxer og Staffordshire Terrier. Það var í raun ást við fyrstu sýn, bæði hjá hundi og mannfólki. „Hann var jafn gamall hinum hvolpunum, en helmingi stærri. Um leið og kom inn í hundagerðið til að skoða hann þá skreið  hann í upp í fangið á mér og flaðraði upp um mig alla,“ segir Cynthia hlæjandi í samtali við BBC. „Andre vissi þá strax að við myndum taka hann með okkur heim. Mér finnst eins og hann hafi valið okkur,“ bætir hún við. Hvolpurinn fékk svo nafnið Henry.

Mynd/Skjáskot af Instagram

Þar sem hann er blanda af nokkrum orkumiklum hundategundum varð hann strax mjög viljugur að fara í langar göngur og fjallaferðir með nýjum eigendum sínum. Þegar Henry hafði verið hjá Cynthiu og Andre í rúmt ár áttaði hún sig á því að hún var líklega að birta of margar myndir af honum á samfélagsmiðlum sínum. Henni datt því í hug að það gæti verið gaman að útbúa sérstaka Instagram-síðu fyrir Henry. Það tók hundinn þrjú ár að eignast 30 þúsund fylgjendur. En það er fjöldi sem virkir áhrifavaldar á samfélagsmiðlum gætu verið nokkuð sáttir með. Það varð hins vegar allt vitlaust þegar Baloo kom til sögunnar og fylgjendum fjölgaði margfalt.

Að taka að sér kött líka var í raun eitthvað sem þau gerðu fyrir Henry, til að veita honum meiri félagsskap. „Henry sýndi mikinn aðskilnaðarkvíða þegar við fórum að heiman. Hann stressaðist allur upp og vildi hvorki borða né drekka, þannig við ákváðum að reyna að finna handa honum félaga,“ segir Cynthia. „Mér finnst æðislegt að geta tekið dýrin mín með mér hvert sem ég fer, og ég hafði séð á Instagram að fólk var líka að fara í fjallgöngur með ketti og þeir virtust virkilega njóta þess.“

Mynd/Skjáskot af Instagram

Það varð til þess að þau ákváðu að taka að sér kött, en það tók sinn tíma að finna hinn eina rétta sem hentaði þeirra óvenjulegu aðstæðum. „Þú getur nefnilega ekki neytt kött til að gera eitthvað sem hann vill ekki,“ segir Cynthia, enda kettir þekktir fyrir að fara sínar eigin leiðir.

Baloo, er síamsblendingur, en honum var bjargað af götunni líkt og Henry. Hann var einn af átta kettlingum úr sama goti, en allir voru þeir yfirgefnir skömmu eftir að þeir komu í heiminn. „Um leið og Baloo sá Henry fyrst þá klessti hann sér upp við hann. Hann er klárlega með þráhyggju fyrir Henry. Ef það þarf að róa  hann niður þá setur maður hann bara við hliðina á Henry og hann róast strax og sofnar. Ég held hann haldi að Henry sé mamma hans. Fyrstu mánuðina eftir að við fengum hann þá nuddaði hann sér gjarnan upp við Henry og reyndi að fá sér að drekka.“

Mynd/Skjáskot af Instagram


Cynthia telur að Baloo haldi að hann sé hundur. „Ef hann sér hund úti á göngu þá hleypur hann til hans, en ef hann sér kött þá lætur hann eins og hann sjái hann ekki og sýnir engan áhuga. Eins og hann átti sig ekki á því hvaða tegund hann er. Það er mjög fyndið,“ segir hún.

Andre vinnur hefðbundna skrifstofuvinnu í fjármálageiranum, en eftir að vinsældir Instagram-síðu Henry og Baloo urðu jafn miklar og raun ber vitni ákvað Cynthia að hætta í sínu starfi sem markaðsfulltrúi og einbeita sér að því að sjá um síðuna og ljósmyndaferli sínum.

„Það er svolítið ógnvekjandi að reyna fyrir sér sem listamaður því það er ekki mjög trygg vinna, en ég segi fylgjendum síðunnar reglulega að það sé þeim að þakka að ég geti láti drauma mína rætast og starfað við það sem ég elska.“

Cynthia segir það líka góða tilhugsun að hafa geta gefið Henry og Baloo betra líf. „Ég hef meiri tíma til að ferðast og eyða tíma með þeim.“

Mynd/Skjáskot af Instagram


Þau fá hins vegar ekki bara jákvæðar athugasemdir í gegnum síðuna, en það eru alltaf einhverjir sem sjá neikvæðar hliðar á því sem þau eru að gera. „Þegar maður verður þekktur þá fær maður að finna fyrir neikvæðninni líka. Það er öðruvísi að eiga við það. En ég spyr mig bara hvernig fólk geti verið að ráðast á hund og kött.“

Cynthia segir jákvæðu athugasemdirnar þó margfalt fleiri en þær neikvæðu. Í gegnum síðuna hafa þau komist í samband við fleiri sem lifa svipuðum lífsstíl og þeir einnig á sig gagnrýni. „Maður verður bara að hunsa það og láta það yfir sig ganga. Maður les hundruð annarra athugasemda þar sem fólk segir að Henry og Baloo geri daginn betri.“

Hér er hægt að fylgjast með ævintýrum Henry og Baloo

Mynd/Skjáskot af Instagram



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert