„Ég veit ekki af hverju ég lifði af“

Borges treysti sér ekki til að tjá sér sjálfur á …
Borges treysti sér ekki til að tjá sér sjálfur á fundinum en lögmaður hans las upp yfirlýsingu. AFP

„Ég veit ekki af hverju ég lifði af, en ég vil að þið vitið að ég og fjölskylda mín munum helga lífi okkar því að reyna að koma í veg fyrir að eitthvað í líkingu við þetta komi fyrir aftur.“

Þetta segir Anthony Borges, 15 ára nemandi við Marjory Stoneman Douglas framhaldsskólann í Parkland í Flórída sem lifði af þegar einn nemandi við skólann, Nikolas Cruz, hóf skotárás á skólalóðinni þann 14. febrúar síðastliðinn.

Borges hefur verið kallaður „Járnmaðurinn“ vegna þess að hann lagði sig í mikla hættu við að bjarga samnemendum sínum. Hann vill hins vegar ekki láta tala um sig sem hetju. Borges hafði fengið skot í báða fótleggina þegar hann lagði sig í hættu við að loka hurð á skólastofu til að koma í veg fyrir að árásarmaðurinn kæmist þangað inn, en í stofunni voru 20 nemendur í felum. Hann varð fyrir fleiri skotum fyrir vikið. AFP-fréttastofan greinir frá.

Borges tók þátt í blaðamannafundi í Miami í gær ásamt föður sínum, afa og lögmanni. En fjölskyldan greindi frá því að þau hygðust höfða mál gegn yfirvöldum vegna skotárásinnar. Borges mætti á fundinni í hjólastól en hann er enn að jafna sig eftir árásina. Hann hefur þurft að gangast undir níu aðgerðir og hefur dvalið á sjúkrahúsi frá því í febrúar. Hann vildi sjálfur ekki tjá sig á blaðamannfundinum en lögmaður hans las upp yfirlýsingu frá honum.

„Ég veit að ég hef verið kallaður „Járnmaðurinn“ en ég er bara 15 ára unglingur sem var skotinn fimm sinnum. Ég vil bara geta farið aftur í skólann án þess að vera hræddur,“ sagði meðal annars í yfirlýsingunni.

Hann sakar lögreglustjórann, Scott Israel, og umsjónarmann skólans, Robert Runcie, um að hafa brugðist sér þar sem þeim tókst ekki að hindra að Cruz kæmi í skólann þrátt fyrir að hafa vitneskju um að hann væri mjög óstöðugur. „Þið vissuð að það væri eitthvað vandamál þarna, en samt gerðuð þið ekki neitt.“

Faðir Borges tók einnig til máls á fundinum og sagði þetta hafi orðið til þess að knattspyrnuferill sonar hans væri ónýtur. „Það tók lögreglu 38 mínútur að koma til sonar míns eftir að hann varð fyrir skoti.“

Fjölskyldan flutti frá Venesúela til Bandaríkjanna fyrir 15 árum, en þau flúðu óstöðugt stjórnmálaástand og háa glæpatíðni. „Við erum þakklát fyrir það sem hefur verið gert í Washington. Í Venesúela fara milljónir manna í mótmælagöngu og ekkert er að gert,“ sagði faðirinn og vísaði þar til göngunnar March for Our Lives í mars, þar sem krafist var breytingar á byssulöggjöfinni í Bandaríkjunum til að reyna að koma í veg fyrir að þetta gerðist aftur.

Borges er enn að jafna sig en hann hefur þurft …
Borges er enn að jafna sig en hann hefur þurft að gangast undir níu aðgerðir. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert