Hafa fengið afhent gögn um taugaeitur

Sérfræðingar við rannsóknir Salisbury þar sem árásin á Skripal-feðginin var …
Sérfræðingar við rannsóknir Salisbury þar sem árásin á Skripal-feðginin var gerð í byrjun mars. AFP

Bresk og bandarísk yfirvöld hafa fengið afhent gögn sem sýna nokkrar efnagreiningar á efni sem talið er vera novichock-taugaeitur, framleitt í rússnesku herstöðinni Shikhany. The Guardian hefur þessar upplýsingar eftir rússneskum lögmanni sem afhenti gögnin.

Boris Kuznetsov sem flúði frá Rússlandi fyrir einhverjum árum segist hafa afhent breskum sendifulltrúum og bresku lögreglunni skýrslur frá árinu 1995 vegna morðsins á rússneska viðskiptajöfrinum Ivan Kivelidi og ritara hans, en þau létust eftir að hafa verið byrlað taugaeitur. Kuznetsov segist einnig hafa afhent bandarískum yfirvöldum gögnin. Gögnin innhalda meðal annars upplýsingar um efnagreiningar á efni sem fannst á síma Kivelidi.

Breska leyniþjón­ust­an tel­ur sig hafa staðfest að tauga­eitrið sem notað var til árás­ar­inn­ar á fyrrverandi njósnarann Sergei Skripal og dóttur hans hafi verið fram­leitt í Shikhany her­stöðinni. 

Gögnin frá Kuznetsov gætu nýst sem áþreifanleg sönnunargögn vegna rannsóknar á morðtilræðinu á Skripal-feðginunum. Sýni greining fram á að um sambærileg efni sé að ræða í báðum tilfellunum, eru auknar líkur á því að Rússar hafi fyrirskipað morðtilræðið, að sögn Kuznetzov. Vert er þó að hafa í huga gögnin eru orðin gömul og því gæti notagildi þeirra verið takmarkað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert