Rannsaka dauða fréttaljósmyndara

Mótmælendur hlúa hér að Yasser Murtaja eftir að hann var …
Mótmælendur hlúa hér að Yasser Murtaja eftir að hann var skotinn. Hann lést síðar af sárum sínum á sjúkrahúsi. AFP

Ísraelsher mun rannsaka dauða palestínsks blaðamanns sem var skotinn til bana í átökum milli palestínskra mótmælenda og ísraelska hersins. Þetta hefur BBC eftir talsmanni Ísraelshers. 

Fréttaljósmyndarinn Yasser Murtaja, var í vesti merktu fjölmiðlum þegar hann var skotinn í gær. Hann lést síðar á sjúkrahúsi af sárum sínum og var þá 28. Palestínumaðurinn sem hefur látið lífið sl. viku.

„Ísraelsher skýtur ekki viljandi á fréttamenn,“ sagði í yfirlýsingu hersins. Greint var frá því í gær að sex fréttamenn hefðu orðið fyrir skotsárum í mótmælunum í gær.

„Kringumstæðurnar sem fréttamennirnir urðu fyrir skotum í, meintum skotum af Ísraelsher, eru okkur ókunnar og eru nú til rannsóknar.“

Sex fréttamenn skotnir á Gaza

Hundruð Palestínumanna tóku þátt í jarðarför Murtaja í dag og var lík hans vafið inn í fána Palestínu.

Níu Palestínumenn létust í átökunum í gær og tæplega 500 særðust. Var þetta annar föstudagurinn í röð þar sem mótmælendur komu saman á fimm stöðum við landamæri Ísraels og Gaza til þess að krefjast þess að fá að snúa aftur til lands forfeðra sinna, sem nú telst hluti af Ísrael.

BBC segir myndir sem fjöldi fréttastofa hafa birt í dag sýna að Murtaja var auðsýnilega merktur fjölmiðlum, en hann var í vesti sem á stóð „PRESS“ skýrum stöfum. Annar ljósmyndari sem var þar að störfum við hlið Murtaja sagði í samtali við Reuters að hann hafi verið í bæði vesti og með hjálm sem var merkt PRESS.

„Skotmarkið var klárlega fréttamenn,“ sagði bróðir Murtaja Motazem í viðtali við AFP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert