Þrýsti á FBI að skoða pósta Clinton á dulnetinu

Donald Trump og Hillary Clinton. Ítrekað var haft samband við …
Donald Trump og Hillary Clinton. Ítrekað var haft samband við starfsmenn framboðs Trump og stungið upp á leiðum til að nálgast tölvupósta Clinton. AFP

Einn af ráðgjöfum Donald Trumps Bandaríkjaforseta þrýsti á bandarískar ríkisstofnanir í aðdraganda forsetakosninganna 2016 að skoða efni á dulnetinu sem hann taldi vera tölvupósta Hillary Clinton.

CNN hefur þessar upplýsingar frá fjölda heimildamanna. Segja þeir Joseph Schmitz, einn af ráðgjöfum Trumps í utanríkismálum, hafa komið að máli við bandarísku alríkislögregluna FBI og aðrar ríkisstofnanna vegna efnis sem hann sagði einn skjólstæðinga sinna hafa rekist á á dulnetinu. Taldi hann það vera tölvupóstana 30.000 sem hurfu af einkanetþjóni Clinton. Aldrei var sannreynt hvort póstarnir væru frá Clinton og segja heimildamenn sjónvarpsstöðvarinnar að þeir hafi talið póstana vera falsaða.

Tilraun Schmitz er að sögn CNN nýjasta dæmið um tilraunir ráðgjafa forsetans til að finna eitthvað misjafnt um Clinton í kosningabaráttunni, en Schmitz var með fyrstu ráðgjöfum sem Trump tilnefndi í öryggis- og utanríkisráð sitt.

Aðrir sem sæti hafa átt í ráðunum hafa einnig reynt að grafa upp óhróður um Clinton, m.a. George Papadopoulos, sem fékk þær fréttir frá prófessor með tengsl við rússnesk stjórnvöld að þau hefðu undir höndum efni sem skaðað gæti Clinton. Sex vikum síðar fékk Donald Trump yngri sambærileg skilaboð frá viðskiptafélaga og leiddi það til fundar þeirra Jared Kushner, tengdasonar Trump og Paul Manafort, þáverandi kosningaráðgjafa Trump, með rússneskum lögfræðingi.

Steve Bannon, sem var einn helsti ráðgjafi Trump áður en hann var rekinn úr Hvíta húsinu, sagði þingnefnd sem rannsakar meint afskipti Rússa af bandarísku forsetakosningunum frá því í febrúar að utanaðkomandi aðilar hefðu trekk í trekk sett sig í samband við starfsmenn framboðs Trumps sem stungu upp á leiðum til að nálgast tölvupósta Clintons.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert