Öskrandi kettir afstýrðu stórbruna

Þetta er kötturinn Jakob á Íslandi, myndin úr safni og …
Þetta er kötturinn Jakob á Íslandi, myndin úr safni og tengist því ekki brunanum í Þelamörk eða þeim köttum er þar koma við sögu.

Í Herre, sem tilheyrir hinu fámenna sveitarfélagi Bamble í Þelamerkurfylki, vestan við Ósló í Noregi, vaknaði maður með andfælum í íbúð sinni snemma í morgun við það að kettir hans öskruðu og góluðu sem mest mátti vera.

Þegar maðurinn, sem býr einn, komst til vitundar áttaði hann sig á því að íbúð hans stóð í ljósum logum en kviknað hafði í út frá hleðslutæki fyrir höfuðlukt í eigu hans.

„Fullyrða má að kettirnir hafi komið í veg fyrir að þetta yrði stærra,“ segir Petter Ebbesberg í suðausturumdæmi lögreglunnar í samtali við staðardagblaðið Telemarksavisa en þar kemur enn fremur fram að einungis sófi, veggur og nokkrir gluggar hafi orðið eldinum að bráð.

Norska ríkisútvarpið NRK greinir einnig frá brunanum og segir þar að maðurinn hafi náð að slökkva eldinn með handslökkvitæki sínu. Hann hlaut væga reykeitrun og var færður á heilsugæslu til skoðunar.

Samkvæmt norskri reglugerð um brunavarnir ber eiganda fasteignar að sjá til þess að einn reykskynjari hið minnsta sé á hverri hæð fasteignar og sé í lagi auk þess að minnst 6 kílógramma duftslökkvitæki eða 9 lítra froðu- eða vatnsslökkvitæki sé þar tiltækt. Hafa reglur þessar bjargað ófáum norskum mannslífum en stór hluti þjóðarinnar býr í timburhúsum með tilheyrandi eldhættu og er skemmst að minnast brunans í bænum Lærdal í janúar 2014 þar sem 42 timburhús gjöreyðilögðust í stórbruna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert