Skripal fái nýtt nafn í Bandaríkjunum

Sergei Skripal við réttarhöldin í Rússlandi og dóttir hans Yulia. …
Sergei Skripal við réttarhöldin í Rússlandi og dóttir hans Yulia. Bresk yfirvöld skoða nú að finna þeim nýjan dvalarstað í Bandaríkjunum undir nýju nafni.

Rússneska gagnnjósnaranum Sergei Skripal og Yuliu dóttur hans, sem voru hætt komin eftir taugaeiturárás í Bretlandi í síðasta mánuði, mun standa til boða að flytja til Bandaríkjanna og hefja þar nýtt líf undir nýju nafni til að verja þau frekari árásum.  

Breska dagblaðið Times hefur eftir heimildamönnum innan breska stjórnarráðsins að breska leyniþjónustan MI6 sé búin að eiga í viðræðum við kollega sína í bandarísku leyniþjónustunni CIA um að finna þeim feðginunum nýjan dvalarstað.

Áður hefur verið greint frá því að þau Yulia og Sergei Skripal, sem fundust meðvitundarlaus á bekk í verslunarmiðstöð í Salisbury 4. mars, séu nú bæði komin til meðvitundar. Eru þau sögð muna á næstunni aðstoða rannsakendur við rannsóknina á taugaeiturárásinni.

Munu þurfa viðvarandi læknisaðstoð

Yulia, sem er rússneskur ríkisborgari, hefur neitað kröfum rússneska sendiráðsins í London um að veita þeim feðginum sendiráðsstuðning. Segir Times þetta hafa sannfært bresk yfirvöld um að hún hyggist ekki snúa aftur til Rússlands.

Þó að Sergei Skripal sé kominn til meðvitundar á hann lengra í land með að ná bata en dóttir hans og hefur Times raunar eftir hátt settum embættismanni að ólíklegt sé að þau muni nokkurn tímann ná fullum bata. Skaðinn sé þess eðlis að þau muni þurfa á viðvarandi læknisaðstoð að halda.

Heimildamenn Times innan leyniþjónustunnar segja bresk stjórnvöld vilja tryggja öryggi Skripal-feðginanna með því að koma þeim fyrir í  einhverju þeirra landa sem þau deila leyniþjónustuupplýsingum með, en í þeirra hópi eru Bandaríkin, Kanada, Ástralía og Nýja-Sjáland.

„Augljósasti staðurinn til að finna þeim nýtt heimili er Bandaríkin, af því að það er minni hætta á að þau verði drepin þar og þar er auðveldara að vernda þau undir nýju nafni,“ sagði heimildamaðurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert