Segir Noreg „stórveldi“ innan EES

Norska Stórþingið.
Norska Stórþingið. Ljósmynd/Norden.org

Varasamt er að hleypa Bretlandi inn í EES-samstarfið í gegnum Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) þar sem það myndi ógna stöðu Noregs innan þess sem stórveldis. Noregur er aðili að EES-samningnum ásamt Íslandi og Liechtenstein auk allra ríkja Evrópusambandsins.

Þetta hefur norski fréttavefurinn Abcnyheter.no eftir norska stjórnarþingmanninum Heidi Nordby Lunde sem situr á þingi fyrir Hægriflokkinn, flokk Ernu Solberg forsætisráðherra. Tilefnið eru fréttir af því að norskir þingmenn hafi varað Evrópusambandið við því að veita Bretum hagstæðari samning en EES-samninginn við útgöngu þeirra úr sambandinu.

Lunde, sem er einnig formaður norsku Evrópusamtakanna, segist taka undir með umræddum þingmönnum. Fyrst og fremst skipti máli í því sambandi hvort hagsmunir Noregs og Bretlands fari saman að hennar sögn. Ekki sé endilega gefið að sú sé raunin. Bresk stjórnvöld hafa ítrekað hafnað þeim möguleika að gerast aðilar að EES í gegnum EFTA.

„Þar sem mér er umhugað um þjóðarhagsmuni [Noregs] tel ég að við verðum að velta fyrir okkur hvort það er okkur í hag að land með 80 milljónir íbúa verði aðilar að eina samningnum þar sem Noregur er stórveldi,“ segir Lunde ennfremur.

Fái Bretar betri samning við Evrópusambandið myndu EFTA/EES-ríkin fara fram á að fá það sama, segir Lunde. Á hinn bóginn segir hún að ekki sé endilega víst að samningur sem Bretar teldu betri en EES fyrir sig væri einnig hagstæðari fyrir Noreg.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gagnrýndi í umræðum á Alþingi í febrúar að hin EFTA/EES-ríkin létu undan kröfum Evrópusambandsins í EES-samstarfinu áður en ríkin þrjú hefðu komist að niðurstöðu sín á milli sem þýddi að Ísland stæði eitt í þeim efnum.

Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðiprófessor sagði ennfremur í norskum fjölmiðlum á dögunum að Norðmenn hefðu oft kosið að fara eigin leiðir í EES-samstarfinu og haft tilhneigingu til þess að horfa framhjá hagsmunum Íslands og Liechtenstein.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert