Efast um að Skripal sé á spítalanum

Sergei Skripal.
Sergei Skripal. AFP

Fréttamanni og tökuliði hjá rússnesku einkasjónvarpsstöðinni REN TV var vísað af spítalanum í Sailisbury þar sem Sergei Skripal dvelur eftir að þau gerðu grín að taugaeiturárás sem Sergei og dóttir hans Júlía urðu fyrir.

Öryggisverðir á spítalanum kölluðu eftir aðstoð lögreglu þegar fólkið lét öllum illum látum á spítalanum snemma í morgun.

Talsmaður spítalans sagði uppátækið hræðilegt. Fréttamaðurinn og tökuliðið hefði komið að starfsfólki um miðja nótt án þess að fá leyfi til þess að koma á spítalann. 

Í frétt Sky News kemur fram að rússneski fréttamaðurinn hafi ráfað um gangana á spítalanum. Hann hafi síðan talað í myndavélina og gagnrýnt öryggisgæslu á spítalanum og sagt að slæm öryggisgæsla bendi til þess að Skripal sé ekki vistaður á umræddum spítala.

„Fólkið var beðið um að yfirgefa spítalann og gerði það. Enginn var handtekinn,“ sagði talsmaður lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert