Vill ekki hitta rússneska embættismenn

Júlía Skripal.
Júlía Skripal. Af Facebook

Júlía Skripal, sem varð fyrir taugagasárás í Bretlandi í síðasta mánuði ásamt föður sínum, hefur afþakkað aðstoð frá rússneska sendiráðinu í landinu. Þetta er haft eftir talsmanni breska utanríkisráðuneytisins í frétt AFP en ráðamenn í Rússlandi höfðu áður farið fram á það að fá að ræða við hana og föður hennar en þau eru bæði rússneskir þegnar.

„Það er hennar að ákveða hvort hún vill sækjast eftir henni. Til þessa skilst okkur að hún hafi ekki gert það,“ er enn fremur haft eftir talsmanninum. Bresk stjórnvöld hafa sakað Rússa um að standa á bak við árásina en ráðamenn í Rússlandi þvertaka fyrir það. Skripal hefur verið úrskrifuð af sjúkrahúsi en faðir hennar liggur þar enn að sögn starfsmanna þess.

Greint hefur verið frá því að feðginin kunni að verða flutt til Bandaríkjanna og gefin ný nöfn. Rússneska sendiráðið í London hefur gagnrýnt slík áform harðlega og sagt að ef til þess kæmi að þau yrðu flutt á leynilegan stað og gætu ekki verið í sambandi við ættingja sína yrði litið svo á að þeim hafi verið rænt eða a.m.k. neydd til þess að lifa í einangrun.

Júlía Skripal var að heimsækja föður sinn í Bretlandi þegar árásin var gerð. Faðir hennar, Sergei Skripal, hefur búið í Bretland um árabil en hann var fengelsaður í Rússlandi fyrir að selja leyniskjöl til breskra stjórnvalda á 10. áratug síðustu aldar. Honum var hins vegar sleppt árið 2010 í fangaskiptum á milli Rússlands og Bretlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert